Risasigur Íslands og verðlaun í eigin höndum

Íslenska kvennalandsliðið fagnaði risasigri í dag.
Íslenska kvennalandsliðið fagnaði risasigri í dag. Ljósmynd/ÍHÍ

Íslenska kvennalandsliðið í íshokkí vann sannkallaðan risasigur gegn Rúmeníu þegar þjóðirnar mættust í dag í B-riðli 2. deildar heimsmeistaramótsins sem nú stendur yfir á Spáni. Lokatölur urðu 12:1 og fyrir síðasta leikinn er Ísland með örlögin í eigin höndum hvað verðlaun varðar.

Það var snemma ljóst í hvað stefndi eftir að Flosrún Jóhannesdóttir kom Íslandi yfir eftir rétt rúma mínútu. Eftir fylgdu fjögur mörk í fyrsta leikhluta og staðan að honum loknum 5:0 fyrir Ísland. Í öðrum leikhluta minnkaði Rúmenía muninn, en Ísland bætti tveimur mörkum við og var 7:1 yfir fyrir þriðja og síðasta leikhluta.

Eftir níu sekúndur í honum kom áttunda mark Íslands, sem skoraði alls fimm mörk í leikhlutanum og vann risasigur 12:1. Silvía Björgvinsdóttir skoraði fimm af mörkum Íslands í leiknum og Herborg Geirsdóttir skoraði þrjú. Mörk og stoðsendingar má sjá neðst í fréttinni.

Toppliðin Spánn og Tavían mætast síðar í kvöld, en bæði lið hafa 9 stig fyrir leikinn. Ísland er nú með 8 stig í þriðja sæti og Nýja Sjáland kemur þar á eftir með 7 stig. Ísland mætir Taívan í lokaleik sínum á föstudag og Nýja Sjáland mætir Spáni. Ísland á því enn möguleika á efsta sætinu.

Til þess þarf Taívan að vinna Spán í framlengingu í kvöld og tapa svo fyrir Íslandi á föstudag. Spánn þarf sömuleiðis að tapa fyrir Nýja Sjálandi. Sama hvað þá er allavega ljóst að Ísland er í góðri stöðu hvað möguleika á verðlaunum varðar á mótinu.

Mörk/stoðsendingar Íslands í leiknum í dag:

Silvía Björgvinsdóttir 5/1
Herborg Geirsdóttir 3/1
Flosrún Jóhannesdóttir 1/2
Kristín Ingadóttir 1/2
Sunna Björgvinsdóttir 1/2
Arndís Sigurðardóttir 1/0
Sarah Smiley 0/4
Anna Ágústsdóttir 0/2
Kolbrún Garðarsdóttir 0/1
Ragnhildur Kjartansdóttir 0/1
Teresa Snorradóttir 0/1

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert