Eigum jafn mikla möguleika og Holland

Vladimir Kolek, landsliðsþjálfari í íshokkí.
Vladimir Kolek, landsliðsþjálfari í íshokkí. mbl.is/Jóhann Ingi

„Við erum búnir að taka einn æfingaleik á móti Hollandi en þá vantaði 13 leikmenn í liðið þeirra. Nú er liðið öðruvísi og enn sterkara og þeir gerðu vel á móti Kína í gær, þetta er mjög sterkt lið," sagði Vladimir Kolek, landsliðsþjálfari karlaliðsins í íhokkí í stuttu spjalli við mbl.is fyrir leik liðsins við Holland kl. 18 í kvöld. 

Leikurinn er liður í A-riðli 2. deildar á heimsmeistaramótinu í Tilburg, Hollandi. Ísland tapaði fyrir Ástralíu í fyrsta leik, 3:0, á meðan Hollendingar skelltu Kína, 7:0. Þjálfarinn segir Hollendinga vera sigurstranglega á mótinu. 

„Þeir eru sigurstranglegastir og þeir sýndu það í leiknum í gær, þar sem þeir spiluðu mjög vel. Þeir eru mjög sterkir manni fleiri, mjög sterkir við mark andstæðingana og svo eru þeir fljótir að refsa."

En hvað þarf að bæta frá því í fyrsta leik? 

„Við verðum að vera sterkari einn á einn og þora að taka þá á. Ef við verjumst vel og erum fljótir á milli vallarhelminga getum við verið hættulegir. Við verðum að skapa fleiri færi og sækja á fleiri mönnum. Við erum að einbeita okkur að því að verða betri."

Þrátt fyrir að hollenska liðið sé sterkt, telur hann möguleika Íslands ágæta. 

„Þetta byrjar í 0:0 og við eigum jafn mikla möguleika og Holland í þessum leik. Það er undir okkur komið hvernig þetta fer," sagði Vla­dimír Kolek.

Vladimir Kolek (lengst til vinstri) á íslenska bekknum í leiknum …
Vladimir Kolek (lengst til vinstri) á íslenska bekknum í leiknum á móti Ástralíu. Ljósmynd/Stefán Örn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert