Snýst um að vinna og við náðum því ekki

Robbie Sigurðsson með pökkinn í leiknum í dag.
Robbie Sigurðsson með pökkinn í leiknum í dag. Ljósmynd/Stefán Örn

„Það skiptir engu. Þetta snýst um að vinna og við náðum því ekki,“ sagði Robbie Sigurðsson, landsliðsmaður í íshokkí, er blaðamaður mbl.is spurði hvort hann væri ánægður með að skora tvö mörk í 6:3-tapi Íslands á móti Belgíu í A-riðli 2. deildar heimsmeistaramótsins í Hollandi í dag. 

Íslenska liðið lék vel á köflum en þess á milli náði liðið sér ekki á strik. 

„Við gáfum þeim nánast mörkin sem þeir skoruðu. Þegar við spiluðum okkar leik þá fengum við tækifæri til að skora. Sem betur fer byrjuðum við að skora undir lokin, en við verðum að koma pökknum í netið fyrr í leikjum og spila vel frá byrjun. Þetta er andlegt. Menn voru lengi inn á í einu og við náðum ekki að skipta. Þá fengu þeir færin og skoruðu eftir heimskuleg mistök. Við verðum að vera skarpari og ná að skipta oftar til að vera með ferskar fætur inn á.”

Hvað fannst Robbie virka vel er Ísland breytti stöðunni úr 4:0 í 4:3 í síðasta leikhlutanum?

 „Við spiluðum með hjartanu. Við töluðum um það í síðari pásunni að við yrðum að vera betri og spila okkar leik. Við vildum spila með hjartanu og spila 100% allan tímann, svo við gætum farið sáttir á bekkinn í hvert skipti. Við byrjuðum á því en vorum óheppnir í endann.”

2. leikhlutinn var ekki góður hjá íslenska liðinu. 

„Hann var alls ekki nógu góður og það er okkur að kenna. Við verðum að gera betur og spila í 60 mínútur ekki bara 40.”

Hann er ekki af baki dottinn þó fyrstu þrír leikir mótsins hafi tapast. 

„Við byrjum á næsta leik og einbeitum okkur að honum. Við viljum spila okkar leik og halda okkur við það sem við gerum vel. Ef við spilum eins og við gerðum í 3. leikhluta þá eigum við góða möguleika," sagði hann að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert