„Þetta þarf ekki að vera fallegt“

Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar.
Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar er uppalinn KR-ingur og hann gat leyft sér að brosa í leikslok þegar hann hafði unnið gömlu félaga. Stjarnan vann leikinn 74:73 eftir æsilegar lokamínútur og sitja Garðbæingar nú í þriðja sæti Dominosdeildar karla með 16 stig.

„Þessi lið núlla ýmislegt út sem hitt liðið gerir vel. Ægir sat á Justin allan leikinn og gerði honum lífið leitt en mér fannst við sömuleiðis ná að halda Craion ágætlega í skefjum á löngum köflum. Við vorum fúlir í hálfleik eftir að hafa náð góðri stöðu og rúllað upp frákastabaráttunni og farið svo út af sporinu í okkar leikskipulagi. Dagskipunin var að stoppa þeirra hröðu sóknir snemma, jafnvel með villum en við gleymum því í smá stund og það var ekki gott.“

Hrafn gaf sér tíma til að hrósa leikmanni sem fær kannski ekki alltaf verðskuldað hrós. „Þetta þarf ekki alltaf að vera fallegt. Gústi (Ágúst Angantýsson) kom þarna inn með hluti sem eru bara ekkert öllum gefnir og gera ótrúlega mikið fyrir liðið. Hann var að fleygja sér á boltann, takandi mikilvæg fráköst, verjandi skot og hann var svona límið okkar þarna undir lokin.“

Stjarnan hefur stundum ekki náð að fylgja eftir góðum sigrum og dottið örlítið niður. Hrafn hafði svör á reiðum höndum varðandi meintan óstöðugleika Stjörnunnar. „Þú ert ekki kóngur þó að þú vinnir leik og þú ert ekki aumingi þó að þú tapir leik. Við þurfum bara að vera einhversstaðar þarna á milli og halda kúrsinum. Það er verkefnið núna,“ sagði Vesturbæingurinn Hrafn Kristjánsson að lokum.

mbl.is