Kaninn tekinn með jónu og kemur því ekki

Teitur Örlygsson.
Teitur Örlygsson. mbl.is/Kristinn

„Til að vinna KR án Kana þarf gott framlag frá öllum leikmönnum en það tókst ekki. KR-ingar voru bara klárir og unnu sanngjarnt,“ sagði Teitur Örlygsson, aðstoðarþjálfari Njarðvíkur, í samtali við mbl.is eftir að liðið féll út úr bikarkeppni karla í körfuknattleik eftir tap gegn KR í kvöld, 90:74.

Þetta var annar tapleikur liðsins í röð eftir ósigur gegn Hetti í deildinni í liðinni viku, en Teitur segir það ekki áhyggjuefni.

„Nei alls ekki, við gerðum okkur grein fyrir því frá upphafi að þetta yrði erfitt án Kana. En við þurfum að þjappa okkur enn betur saman og vonandi ganga þessi Kanamál í gegn fljótlega. Við eigum hörkuleik gegn Snæfelli næst og þurfum að komast aftur á sigurbraut þar. Það þýðir ekki að dvelja við þetta mikið lengur en næsta klukkutímann en snúa okkur svo að stóra titlinum þar sem við ætlum að vera með í baráttunni í vor,“ sagði Teitur.

Talandi um Kana-málin, þá fréttist það í dag að Bandaríkjamaðurinn Michael Craig sem liðið hafði náð samningum við fengi ekki atvinnuleyfi á Íslandi þar sem hann væri á sakaskrá. Njarðvíkingar fengu að vita það rétt fyrir helgi og því hefur mikið verið lagt í að finna annan leikmann í hans stað. En fyrir hvað er hann á sakaskrá?

„Hann var tekinn með jónu held ég fyrir fjórum árum, það er allt og sumt. Þá ertu bara í vondum málum og færð ekki atvinnuleyfi á Íslandi. En reglur eru bara reglur og við höldum bara áfram. Við höfum skoðað leikmenn alla helgina og vonandi gerist eitthvað í þeim málum næsta sólarhringinn,“ sagði Teitur og segir að koma hefði mátt í veg fyrir svo langt ferli.

„Vonandi tekur það minni tíma. Við vorum tilbúnir með öll skjöl hjá Útlendingastofnun fyrir tveimur vikum en fengum ekki svar fyrr en á fimmtudag. Það er lélegt að fá það svona seint, hefðum við fengið svar strax værum við með Kana í dag,“ sagði Teitur Örlygsson í samtali við mbl.is.

mbl.is