Haukar í úrslit á afmælisdaginn

Finnur Atli Magnússon kominn framhjá Myron Dempsey og býr sig …
Finnur Atli Magnússon kominn framhjá Myron Dempsey og býr sig undir að skora. mbl.is/Golli

Haukar héldu upp á 85 ára afmæli félagsins með því að komast í úrslit Dominos-deildar karla í körfubolta í fyrsta sinn frá því að átta liða úrslitakeppnin var tekin upp árið 1995. Spennan var rafmögnuð á Sauðárkróki í kvöld.

Haukar unnu einvígi sitt við Tindatól 3:1, með því að vinna fjórða leik liðanna í kvöld á Sauðárkróki, 70:68. Tindastóll fékk 23 sekúndur í lokasókn sína sem heppnaðist ekki sem skyldi, en endaði með þriggja stiga skoti Helga Freys Margeirssonar í spjaldið og ofan í. Leiktíminn rann hins vegar út nokkrum sekúndubrotum áður en boltinn fór úr höndum Helga, og dæmdu dómarar leiksins körfuna því ekki gilda eftir að hafa skoðað atvikið í sjónvarpi.

Leikurinn var nokkuð kaflaskiptur. Haukar virtust vera að stinga af í þriðja leikhluta þegar þeir náðu 14 stiga forskoti, en heimamenn keyrðu muninn strax niður í eitt stig, 56:55, þegar skammt var eftir af leikhlutanum. Staðan fyrir lokafjórðunginn var 62:57, Haukum í vil. Haukar skoruðu ekki stig fyrstu sex mínútur lokafjórðungsins og Stólarnir komust í 66:62. Staðan var jöfn, 68:68, þegar lokamínútan hófst og hún var það þar til að Kári Jónsson setti niður tvö vítaskot 23 sekúndum fyrir leikslok. Það reyndust sigurstigin.

Haukar unnu fyrsta leik liðanna 73:61 en Tindastóll svaraði með sigri í háspennuleik hér á Sauðárkróki, 69:68. Haukar unnu svo aftur á heimavelli á laugardag, 89:81.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Tindastóll - Haukar, 68:70
(21:19 - 39:41 - 57:62 - 68:70)

Leik lokið. (68:70) Leiktíminn var útrunninn! Haukar eru komnir í úrslit!

40. (68:70) Helgi Freyr setur niður þrist, spjaldið og ofan í, en var leiktíminn búinn?!? Haukar fagna en dómararnir ætla að skoða atvikið.

40. (68:70) Kári setur niður bæði víti sín fyrir Hauka. Þvílíkar taugar! 23 sekúndur eftir og Tindastóll tekur leikhlé.

39. (68:68) Helgi Rafn óð að körfu Hauka en boltinn rúllaði hring á körfuhringnum án þess að fara ofan í. Í staðinn jafnaði Finnur Atli metin með fallegu skoti á hinum enda vallarins.

36. (66:64) Boltinn hefur vissulega dansað á hringnum en Haukar höfðu ekki skorað stig í lokafjórðungnum fyrr en nú, að Emil Barja setti niður bæði vítaskot sín. Mikilvægt!

34. (64:62) Ingvi Rafn jafnaði metin með fallegum þristi og Lewis kom heimamönnum yfir í kjölfarið.

32. (59:62) Dempsey kveikir í kofanum með troðslu og vinnur svo frákastið í vörninni.

Leikhluta 3 lokið. (57:62) Fimm stiga munur fyrir lokafjórðunginn. Pétur Rúnar sýndi hversu lítinn áhuga hann hefur á að fara í frí og skoraði meðal annars níu stig í þriðja leikhluta. Þeir Dempsey og Lewis fá hins vegar ekki nægilega mikla aðstoð. Hjá Haukum dreifist álagið betur á herðar manna.

29. (55:56) Sjaldan séð leikmann fá svona góðan tíma til að taka skref út fyrir þriggja stiga línuna og athafna sig, en Dempsey nýtti sér það og minnkaði muninn í eitt stig!

27. (52:56) Pétur Rúnar opnar vel fyrir Dempsey sem setur niður þrist og minnkar muninn í sex stig. Pétur fær svo vítaskot í næstu sókn sem hann setur bæði.

25. (42:53) Dempsey minnkar muninn af vítalínunni en það þurfa fleiri en þeir Lewis að láta til sín taka í Tindastólsliðinu. 

23. (39:51) Stólarnir hafa enn ekki skorað í seinni hálfleik, þrátt fyrir ágæt færi til þess, og Haukar eru allt í einu komnir 12 stigum yfir! Finnur Atli setti niður körfu og Emil stal svo boltanum strax, kom honum á Kára og hann gladdi stuðningsmennina allsvakalega með þristi.

21. (39:44) Haukur Óskarsson skorar fyrstu stig seinni hálfleiks. Kári var svo nálægt því að vinna boltann fyrir Hauka og kastaði sér út fyrir völlinn á ritaraborðið. Ekki þægilegt, en hann jafnar sig fljótt.

21. Seinni hálfleikur hafinn. Tindastólsmenn hafa 20 mínútur til að koma í veg fyrir að sumarfríið þeirra hefjist í kvöld.

Hálfleikur. Kristinn Marinósson er að fá „fjandsamlegt“ kálfanudd hjá sjúkraþjálfara Hauka hérna áður en seinni hálfleikur hefst. Fín innkoma hjá honum af bekknum í fyrri hálfleik.

Hálfleikur! (39:41) Kári skoraði síðustu stig hálfleiksins af vítalínunni og Haukar leiða í hálfleik. Brandon Mobley er stigahæstur hjá Haukum með 13 stig og 6 fráköst. Lewis hefur skorað 14 fyrir Stólana og Dempsey 11. Þetta virðist ætla að verða nákvæmlega sá spennuleikur sem vonast var eftir. Kristinn Marinósson er einn kominn í þrjár villur.

18. (37:37) Nettengingin brást hérna í smástund. Biðst velvirðingar á því. Á meðan komust Haukar yfir í leiknum en Svavar Atli var að jafna metin með þristi.

Leikhluta 1 lokið. (21:19) Tindastóll hefur haft frumkvæðið allan leikinn, en Brandon Mobley, leikmaður Hauka, minnkar muninn með þriggja stiga körfu í þann mund sem flautan gellur. 

9. (21:13) Viðar keyrir að körfunni og skorar, og Pétur Rúnar gerir slíkt hið sama með miklum tilþrifum eftir að hafa hirt frákast í vörninni.

8. (17:11) Finnur Atli að klikka á tveimur heldur auðveldum sniðskotum í röð. Lewis heitur, setur þrist.

6. (12:9) Lewis var ósáttur við að fá ekki villu á Hauka í síðustu sókn en skoraði í þeirri næstu af harðfylgi og setti niður víti að auki. Hér eru menn að berjast um hvert frákast eins og allt sé undir, sem er auðvitað raunin.

4. (9:9) Mobley jafnar metin fyrir Hauka. Setti niður sniðskot og víti að auki.

2. (5:4) Lewis kveikir í fólki með alvöru troðslu.

2. (3:2) Kári skorar fyrstu stig leiksins en Pétur Rúnar svarar með þristi.

1. Leikur hafinn! Velkomnir í Síkið, kyrja stuðningsmenn Tindastóls hástöfum. Þetta er byrjað! Haukar unnu uppkastið.

----------------------------

0. Þá er búið að kynna liðin til leiks með tilheyrandi látum. Allt að verða klárt.

0. Stúkan er full og hér er staðið hringinn í kringum völlinn eins og vera ber á svona ögurstundu. Stuðningssveitir liðanna láta vel í sér heyra en leikmenn rembast við að halda kúlinu í upphitun. Innan við tíu mínútur í að leikurinn hefjist.

0. Það er svakalega mikið undir hérna í kvöld. Auðvitað er alltaf hægt að horfa til næstu leiktíðar en það er núna, akkúrat núna í vor, sem bæði þessi lið sjá sérstaklega góðan möguleika á Íslandsmeistaratitli, um það er ég viss um. „Gömlu“ karlarnir í Tindastólsliðinu eru ekkert að yngjast, og Haukar missa sinn besta mann, Kára Jónsson, til Bandaríkjanna í sumar. Núna er tækifærið!

0. Helena Sverrisdóttir er mætt í stúkuna til að styðja unnusta sinn, Finn Atla, og aðra leikmenn Haukaliðsins, degi eftir að hafa farið með kvennaliði Hauka í úrslitin. Það yrði sannarlega magnaður árangur hjá Haukum ef bæði körfuboltalið félagsins kæmust í úrslitin, sama vetur og bæði handboltalið félagsins urðu deildarmeistarar.

0. Stúkan er alveg að fyllast hérna í Síkinu, hingað var fólk mætt til að taka frá sæti 70 mínútum fyrir leik, ljósasýningin er klár og alveg bókað mál að stemningin verður rosaleg.

0. Nú er klukkutími í að leikur hefjist en Myron Dempsey er búinn að vera einn úti á gólfinu í um 20 mínútur að mýkja skotin sín. Það veltur auðvitað mikið á honum og þetta er fyrsti leikurinn hér í Síkinu síðan að hinn „Kaninn“ í Tindastóls-liðinu, Anthony Gurley, kvaddi Krókinn.

0. Þriðji leikur liðanna, nú á laugardag, var spennandi en staðan var jöfn, 72:72, þegar þrjár mínútur lifðu leiks. Haukar reyndust sterkari í lokin og unnu 89:81. Brandon Mobley átti frábæran leik fyrir Hauka en hann skoraði 23 stig og tók 13 fráköst. Hinn tvítugi Pétur Rúnar Birgisson var sömuleiðis frábær fyrir Stólana, skoraði 16 stig og tók 12 fráköst.

0. Hjálmar Stefánsson er ekki með Haukum í kvöld eftir höfuðhöggið sem hann fékk frá Darrel Lewis í síðasta leik, en hann fékk snert af heilahristing og var enn með smáhöfuðverk á æfingu Hauka í gær, samkvæmt frétt á vefmiðlinum Karfan.is. Það er skarð fyrir skildi hjá Haukum að hafa ekki Hjálmar, sérstaklega í varnarleiknum.

0. Gott kvöld kæru lesendur og verið velkomnir í beina textalýsingu Mbl.is héðan frá Sauðárkróki þar sem framundan er fjórða viðureign Tindastóls og Hauka. Haukar geta haldið upp á 85 ára afmæli félagsins í dag með því að tryggja sér sæti í úrslitum, en Tindastóll þarf sigur til að knýja fram oddaleik sem fram færi í Hafnarfirði á föstudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert