Þetta gjörbreytir landslaginu hjá okkur

Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka.
Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka. mbl.is/Golli

„Það að fá Kára [Jónsson] í okkar raðir gjörbreytir þeim markmiðum sem við setjum fyrir lagið. Landslagið er farið frá því að vera að berjast um heimavallarétt í úrslitakeppninni í það að stefna á að komast alla leið í úrslit,“ sagði Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka, í samtali við mbl.is, eftir að Kári Jónsson skriaði undir samning þess efnis að leika með Haukum í Dominos-deild karla í körfubolta í vetur.

Auk þess að fá Kára í sínar herbúðir þá skiptu Haukar nýverið um Bandaríkjamann. Ívari líst vel á það sem Paul Anthony Jo­nes hafði fram að færa í tapinu gegn Grindavík og býst við miklu af honum í framhaldinu. 

„Með tilkomu Kára og Paul erum við að bæta verulega í vopnabúrið okkar í sóknarleiknum. Við höfum átt í verulegum vandræðum með að hitta fyrir utan og við erum komnir með tvo góða skotmenn. Þá eru þeir báðir góðir í að sækja á körfuna og það hefur einnig vantað í okkar leik. Þar að auki eru þeir báðir góðir varnarmenn þannig að við erum að bæta okkur verulega á báðum endum vallarins,“ sagði Ívar um kosti Kára og Paul Anthony Jones. 

mbl.is