Getum gengið sáttir frá þessu

Kristófer Acox.
Kristófer Acox. mbl.is/Golli

„Ég held að þetta sé það besta sem við höfum spilað í einhvern tíma,“ sagði Kristófer Acox eftir að KR vann Keflavík 102:85 í 8. umferð Dominos-deildar karla í körfubolta í kvöld.

Keflvíkingar fóru vel af stað og voru yfir eftir fyrsta leikhlutann en eftir það sneru meistararnir taflinu sér í vil og unnu að lokum sanngjarnan sigur.

„Við byrjuðum reyndar ekki vel þó að við séum búnir að vera reyna laga það á hverri æfingu. Við höfum verið slappir að byrja leikina en sem betur fer vorum við fljótir að laga það og um leið og við náðum því vorum við með með þá allan leikinn og ég held að við getum gengið sáttir frá þessu í dag.“

Það vantaði marga lykilleikmenn í lið KR í kvöld og segir Kristófer að auðvitað muni um þá en hann var einnig ánægður með framlag þeirra ungu leikmanna sem fengu að spreyta sig, Orra Hilmarssonar og Andrésar Ísaks Hlynssonar.

„Já að sjálfsögðu, það vantar helminginn í liðinu og þrjá lykilmenn en margir aðrir stigu upp og sérstaklega þeir ungu eins og Orri og Andrés sem settu stór skot. Það gefur okkur plús að geta leitað á þá þegar það vantar stóra menn en heilt yfir spiluðum við sem lið og ég held að það hafi skilað sigrinum.“

KR-ingar unnu gífurlega mikið af sóknarfráköstum, sérstaklega í fyrri hálfleik, og það skilaði mörgum stigum en Kristófer segir það hafa verið uppleggið.

„Við erum með stærð í mér og Jalen og við töluðum um það fyrir leikinn að vera duglegir að pressa á spjöldin og ná í fráköst og lausa bolta, það gaf okkur helling af stigum og vonandi getum við gert það meira.“

Ríkjandi Íslands- og bikarmeistararnir höfðu tapað síðustu tveimur leikjum sínum og aðspurður hvort KR-ingar hefðu fundið fyrir pressunni fyrir þennan leik svaraði Kristófer játandi.

„Klárlega, ég man ekki hvenær við töpuðum síðast tveimur í röð í deildinni og auðvitað finnur maður fyrir pressu. Að ná í sigur á svona sterkum heimavelli gegn liðinu í öðru sæti er gríðarlega sterkt.“

mbl.is