Verð ringlaður þegar ég skoða þetta

Íslenska liðið fagnar sigrinum sæta í kvöld.
Íslenska liðið fagnar sigrinum sæta í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Craig Pedersen, landsliðsþjálfari karlaliðsins í körfubola, átti erfitt með að átta sig á hvað hefði gerst í 4. leikhlutanum í sigri Íslands á Finnlandi í undankeppni heimsmeistaramótsins í Laugardalshöll í kvöld. Hann viðurkennir að frammistaðan í lokaleikhlutanum hafi komið sér á óvart.

„Við spiluðum góða vörn og skoruðum mikið í 4. leikhluta, sem kemur mér svolítið á óvart því Finnar eru mjög líkamlega sterkir og spila skipulagða vörn. Þegar ég skoða þetta og sé að við skoruðum 29 stig í 4. leikhluta verð ég ringlaður, því það virðist ekki rétt. Þetta var æðislegt."

Pedersen hrósaði Hlyni Bæringssyni sérstaklega í leikslok, en hann átti virkilega góðan leik.

„Hlynur var eins og dýr á vellinum og hann hætti aldrei. Hann er í mjög góðu formi og orkan í honum er mögnuð. Hann tók mikilvæg fráköst þegar Finnarnir voru líklegri til að taka þau. Ég er ekki viss hvernig við fórum að þessu. Við komumst í stuð og hittum vel í lokin. Við hittum nánast úr öllu í lokin.

Ísland mætir Tékklandi í sömu keppni á sunnudaginn kemur. 

„Það er enn nóg eftir í riðlunum og við þurfum að hvíla vel og spila eins vel og við getum á sunnudaginn og bæta við öðrum sigri," sagði Kanadamaðurinn að lokum.

mbl.is