„Körfuboltaguðirnir voru með okkur í kvöld“

Sigtryggur Arnar Björnsson átti mjög góðan leik.
Sigtryggur Arnar Björnsson átti mjög góðan leik. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Sigtryggur Arnar Björnsson var aðalmaðurinn á Sauðárkróki í kvöld þegar Tindastóll lagði Grindavík í framlengdum leik í úrslitakeppninni í Dominos-deildinni í körfubolta.

Hann dró sína menn áfram á lokamínútunum þegar Grindvíkingar höfðu nánast gengið frá leiknum. Umdeild undrakarfa frá honum fór með leikinn í framlengingu og í henni kórónaði Sigtryggur leik sinn. Stólarnir unnu að lokum 96:92 og eru því komnir yfir í einvíginu 1:0.

Jæja. Nú ert þú búinn að vera frá keppni um tíma. Hvernig var að koma inn í þennan rosalega leik?

„Það er alveg geggjað. Mér líður hvað best á körfuboltavellinum þannig að það er mjög gott að vera kominn til baka.“

Þú varst hvíldur óvenjumikið í þessum leik. Var það fyrir endasprettinn?

„Ég er ekki búinn að ná mér að fullu og var líka orðinn frekar þreyttur. Ég þarf tíma til að ná pústinu aftur og komast í taktinn. Ég var ekki búinn að eiga það góðan leik svo þetta var bara eðlilegt. Ég reyndi svo bara að gera mitt besta í lokin.“

Viltu segja eitthvað um jöfnunarkörfuna þína undir lok venjulegs leiktíma? Þetta virtist farið frá ykkur en þú náðir einhverju svaka stökki til að blaka boltanum í körfuna og þú hentir Sigurði Þorsteinssyni í gólfið í leiðinni. Á þetta að vera hægt?

„Ég sé bara eftir því að hafa ekki troðið. Nei, nei, ekkert bull. Ég verð bara að sjá þetta aftur til að trúa þessu.“

Þið voruð í basli allan lokaleikhlutann og Grindavík hefði átt að klára þennan leik.

„Grindvíkingar voru rosalega sterkir og hefðu alveg átt skilið að vinna. Körfuboltaguðirnir voru bara með okkur í kvöld. Ég á allt eins von á að næstu leikir verði svona jafnir og spennandi. Þetta er náttúrulega það besta sem áhorfendur fá. Tvö góð lið sem leggja allt í sölurnar,“ sagði Sigtryggur Arnar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert