„Við gáfum allt í leikinn“

Jóhann Þór Ólafsson
Jóhann Þór Ólafsson mbl.is/Kristinn Magnússon

Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindvíkinga í körfubolta, þurfti að bíta í það súra epli í kvöld að tapa þriðja leiknum í röð gegn Tindastóli. Þar með var ljóst að Grindvíkingar væru úr leik í úrslitakeppninni og farnir í snemmbúið sumarfrí.

Grindavík tapaði leiknum í kvöld með þremur stigum, 84:81 eftir afar jafnan og spennandi leik. Tindastóll vann því seríuna 3:0.

Jóhann Þór lét fögur orð falla um sína menn jafnt sem andstæðingana eftir þetta svekkjandi tap.

Þið spilið tvo svakalega leiki hérna í Síkinu og eruð hreinlega óheppnir að tapa aftur.

„Ja, þetta er ekki endilega óheppni í okkur. Það er oft talað um það að þú vinnir þér inn fyrir heppninni. Þetta er svekkjandi en á endanum eru það örfá atriði hér og hvar sem skilja á milli. Það voru einhver smá atriði sem voru að falla með þeim og niðurstaðan er þessi. Ég vil ekki segja að Stólarnir hafi verið heppnir, alls ekki. Þetta voru bara tvö mjög góð lið að berjast og annað liðið þarf að tapa. Í bæði skiptin kom það bara í okkar hlut. Tindastólsliðið er einfaldlega hörkugott lið og ég vil hrósa þeim fyrir frábæra leiki. Ég vona bara að þeir fari sem allra lengst.“

Hvernig var að undirbúa liðið eftir útreiðina sem þið fenguð í síðasta leik á ykkar heimavelli?

„Það var nú ekkert annað í boði fyrir okkur en að rísa úr öskunni og mæta hér með höfuðið hátt. Við gerðum það og ég verð að hrósa mínum mönnum. Við gáfum allt í leikinn og þótt þeir séu að sópa okkur út þá var þetta hörku sería, alla vega í mínum huga.“

Þið virtust leggja áherslu á að stoppa Sigtrygg Arnar og Antonio Hester. Það gekk vel hjá ykkur lengstum.

„Við urðum að hægja á þeim. Sigtryggur er náttúrulega svakalega góður og við héldum honum í fimm stigum í fyrri hálfleik. Mér fannst þetta plan ganga fínt hjá okkur en hann losnaði aðeins í seinni hálfleik. Það var fúlt að sjá hann setja sex stig eftir sóknarfráköst Stólanna og ég æsti mig aðeins yfir því við mína menn“ sagði hinn magnaði þjálfari að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert