„Ólýsanleg tilfinning að sjá skotið fara ofan í“

Brynjar Þór Björnsson tryggði KR ótrúlegan sigur gegn Tindastóli. Hér …
Brynjar Þór Björnsson tryggði KR ótrúlegan sigur gegn Tindastóli. Hér er hann með boltann gegn Viðari Ágústssyni. mbl.is/Árni Sæberg

Brynjar Þór Björnsson var hetja KR-inga í kvöld þegar KR lagði Tindastól 77:75 í þriðja leiknum um Íslandsmeistaratitil karla í körfubolta á Sauðárkróki. Hann skoraði sigurkörfuna úr hálf vonlausu færi um leið og leiktíminn rann út og kom í veg fyrir að leikurinn yrði framlengdur. Brynjar Þór hefur verið lengi í bransanum en var fyrst spurður að því hvar á topp tíu listann þessi leikur færi.

Sjá frétt mbl.is: Ótrúleg sigurkarfa á Króknum

„Ég veit það ekki. Ég hef alla vega aldrei hitt svona sigurkörfu í úrslitakeppninni. Ég hef alveg skorað svipaðar körfur í deildinni en ekkert í svona svakalega mikilvægum leik. Þessi þriðji leikur er svo mikilvægur því það hefur verið þannig síðustu ár að liðið sem vinnur þriðja leik á góðar líkur á að vinna titilinn. Með það í huga vissum við að þetta væri extra mikilvægur leikur. Það er samt ekkert komið hjá okkur en við getum ekki komið jafn værukærir í næsta leik eins og í leik númer tvö í KR-heimilinu, sem við skíttöpuðum.“

Þú virðist þrífast mjög vel í þeirri stemningu sem er í úrslitakeppninni. Áhorfendur hér á Króknum eru alveg brjálaðir.

„Já, ég elska þá og þeir eru skemmtilegir. Þeir eru duglegir að hvetja og duglegir að láta okkur heyra það. Það er stór partur af því að vera í þessu að hafa aðdáendur beggja liða á bakinu. Það gefur þessu meiri lit og meira líf. Maður er í þessu til að njóta svona leikja. Maður veit aldrei hvað eru margir svona leikir eftir á ferlinum.“

Næsti leikur er á ykkar heimavelli á laugardaginn. Það hlýtur að vera draumur allra að tryggja titil á sínum heimavelli með sínum stuðningsmönnum.

„Já, engin spurning, fyrir framan sína stuðningsmenn og fyrir framan sitt fólk. Mamma og pabbi voru ekki á leiknum í kvöld svo ég varð að gefa þeim sénsinn í næsta leik. Við ætlum að taka við titlinum eftir hann.“

Segðu mér frá lokaskotinu. Þú varst með mann ofan í þér út við endalínuna, tvær sekúndur á klukkunni og innkast. Skotið var mjög lengi á leiðinni að körfunni.

„Ég sagði bara við Pavel að finna mig á endalínunni. Ég vissi að ég væri með Pétur á mér, sem er aðeins lægri en ég. Ég átti því að geta náð sæmilegu skoti. Skotið var erfitt en mér leið vel og passaði mig á að setja skotið vel upp í loftið svo það yrði ekki varið. Svo bara fór boltinn í körfuna og það var alveg ólýsanleg tilfinning að sjá það.“

Hvernig er svo að hafa allt KR-liðið ofan á sér? Þið fóruð bara í eina hrúgu eftir skotið þitt.

„Það var yndislegt. Það er ekki oft sem það gerist, langt síðan síðast og vonandi gerist það aftur“ sagði Brynjar Þór að lokum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert