Hrafn Kristjánsson tekur við Álftanesi

Hrafn Kristjánsson og Huginn Freyr Þorsteinsson, formaður meistaraflokks Álftaness.
Hrafn Kristjánsson og Huginn Freyr Þorsteinsson, formaður meistaraflokks Álftaness. Ljósmynd/Álftanes

Hrafn Kristjánsson hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks karla í körfubolta hjá Ungmennafélagi Álftaness (UMFÁ). Liðið mun leika í annarri deild næsta vetur og taka þátt í Maltbikarnum.

Álftanes stóð uppi sem sigurvegari í þriðju deild á síðustu leiktíð. Hrafn er margreyndur þjálfari en síðast þjálfaði hann meistaraflokk karla hjá Stjörnunni sem hann gerði að bikarmeisturum árið 2015. Áður hefur hann þjálfað bæði karla- og kvennalið KR, meðal annars varð karlalið KR að Íslands- og bikarmeisturum árið 2010.

„Álftnesingar höfðu samband við mig eftir að þeir urðu unnu þriðju deild og skýrðu mér frá áformum sínum um uppbyggingu á körfuboltans á Álftanesi næstu árin. Þar er ljóst að mikill metnaður er til staðar og öflugt grasarótarstarf. Áhugi minn liggur í að taka þátt í skemmtilegri uppbyggingu þeirra og styrkja starfið.

Stuttu eftir leiðarlok hjá Stjörnunni tók ég þá ákvörðun að taka mér frí frá efstudeildarharkinu og draga aðeins andann. Í spjalli mínu við vini mína á Álftanesi fann ég fljótlega að þetta gæti orðið skemmtilegt verkefni og í raun eitthvað sem hentaði mér og mínu fólki fullkomlega á þessum tímapunkti.  Planið er fyrst og fremst að búa til eitthvað á Álftanesi sem vekur áhuga bæjarbúa og mögulega þróa lið með tímanum sem lætur til sín taka. 

Mér er til efs að nokkuð 2. deildarlið búi að jafngóðri aðstöðu og Álftnesingar og vonin er að það leynist frískir gæðaspilarar hér og þar sem eru tilbúnir að taka þátt í veislunni,“ sagði Hrafn Kristjánsson. 

mbl.is