Taugatitringur í restina

Ágúst Björgvinsson var sáttur með fyrsta sigur Valsmanna í deildinni ...
Ágúst Björgvinsson var sáttur með fyrsta sigur Valsmanna í deildinni í vetur. mbl.is/Hari

„Ég er fyrst og fremst sáttur með með þennan fyrsta sigur. Við spiluðum gríðarlega vel og áttum sigurinn skilinn,“ sagði Ágúst Björgvinsson, þjálfari Valsmanna, í samtali við mbl.is eftir 97:92-sigur liðsins gegn Stjörnunni í sjöttu umferð Dominos-deildar karla í körfuknattleik á Hlíðarenda í kvöld.

„Þetta var ekkert ósvipaður leikur hjá okkur og aðrir leikir sem við höfum spilað í vetur. Þetta var smá taugatitringur í endann en við erum með gott lið sem er enn þá í ákveðinni mótun og það er enn þá einhver tími í að við verðum fullmótað lið. Við fengum framlag frá mörgum leikmönnum í dag en það er líka fullt af hlutum sem við þurfum að laga. Við vorum ekki að hitta vel í síðasta leik en það breyttist í dag. Við skutum mjög vel og það skóp þennan sigur myndi ég segja.“

Þetta var fyrsti sigur Valsmanna í deildinni í vetur og vonast Ágúst til þess að sigurinn færi leikmönnum liðsins aukið sjálfstraust.

Kendall Lamont Anthony í baráttunni við Collin Pryor á Hlíðarenda ...
Kendall Lamont Anthony í baráttunni við Collin Pryor á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Hari

Nóg eftir af tímabilinu 

„Þessi sigur hlýtur að gefa strákunum sjálfstraust en við erum ekki hættir. Það er nóg eftir af tímabilinu og núna er það bara næsti leikur. Það var mikilvægt að ná í þennan fyrsta sigur í dag upp á framhaldið að gera,“ sagði Ágúst í samtali við mbl.is.

mbl.is