Eigum helling í þessi lið

Berglind Gunnarsdóttir.
Berglind Gunnarsdóttir. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Berglind Gunnarsdóttir, landsliðskona í körfubolta, var nokkuð sátt við frammistöðu Íslands í 74:84-tapinu fyrir Bosníu í undankeppni EM í Laugardalshöll í kvöld. Íslenska liðið náði mest 16 stiga forskoti, en Bosnía var sterkari aðilinn í síðari hálfleik. 

„Ég var mjög ánægð með frammistöðuna í dag. Við vorum allar að berjast og okkur gekk vel inni í teig, sem hefur ekki gengið vel í síðustu leikjum og sérstaklega ekki síðasta leik,“ sagði Berglind og á þá við um leikinn gegn Slóvakíu á laugardaginn sem tapaðist með 30 stigum. 

Íslenska liðið hitti illa af vítalínunni og enn verr úr þriggja stiga körfum, þrátt fyrir að skapa góð færi fyrir utan línuna með góðri spilamennsku. 

„Það var sorglegt að setja ekki niður vítaskotin og svo aðeins fleiri þriggja stiga skot til að fá augnablikið með okkur. Við vorum að taka mjög mikið af góðum skotum fyrir utan sem duttu ekki í dag. Með afleita skotnýtingu og að tapa bara með tíu stigum á móti góðu liði Bosníu er ágætt. Þetta er einn af betri leikjunum okkar í þessari undankeppni. Við ætluðum okkur sigur í síðasta leiknum og lögðum allt í þetta.“

Þrátt fyrir tap í öllum leikjum undankeppninnar segir Berglind íslenska liðið geta tekið nokkuð með sér í komandi verkefni. 

„Við getum alveg verið með sjálfstraustið í botni. Við eigum helling í þessi lið og með góðri frammistöðu getum við alveg stolið sigrum af þessum liðum. Úrslitin í keppninni eru ekki búin að endurspegla hvernig leikirnir eru að spilast. Við höfum verið í nokkuð jöfnum leikjum en síðan tapað því undir lokin. Við þurfum að trúa á að geta unnið þessi lið,“ sagði Berglind. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert