Síðasta EM-tækifærið í ágúst

Landsliðið fyrir leikinn gegn Belgum.
Landsliðið fyrir leikinn gegn Belgum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Karlalandslið Íslands í körfuknattleik leikur í þriðju umferðinni í forkeppni Evrópumótsins 2021 í ágúst 2019. Þetta varð ljóst eftir að Belgía sigraði Portúgal á útivelli, 70:60, í C-riðli 2. umferðar forkeppninnar á sunnudag.

Belgar hafa þar með þegar tryggt sér sigur í riðlinum þar sem þeir hafa unnið alla þrjá leiki sína. Portúgal er með einn sigur í þremur leikjum og Ísland hefur tapað báðum leikjum sínum. Leikir Íslands við Portúgal á heimavelli og Belgíu á útivelli í febrúar hafa því í raun enga þýðingu.

Belgar eru komnir í sjálfa undankeppnina sem hefst í nóvember 2019 en Ísland og Portúgal fara yfir á þriðja stig forkeppninnar. Þar munu tólf lið spila um síðustu fjögur sætin í undankeppninni. Í þeirri keppni verða Ísland, Albanía, Kýpur, Lúxemborg, Kósóvó, Portúgal, Slóvakía og Sviss. Ekki liggur fyrir fyrr en í febrúar hver hin fjögur liðin verða, en allt stefnir í að Bretland og Hvíta-Rússland verði tvö þeirra, líklega Rúmenía og svo Danmörk eða Svíþjóð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert