George hetjan í tvíframlengdum leik

Paul George reyndist drjúgur í nótt.
Paul George reyndist drjúgur í nótt. AFP

Oklahoma City Thunder vann 148:147 í ótrúlegum, tvíframlengdum leik gegn Utah Jazz í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt en Paul George tryggði Oklahoma sigurinn á síðustu sekúndunni.

George lauk leik með 45 stig, níu fráköst og sjö stoðsendingar en Russell Westbrook var ekki langt á eftir í liði Oklahoma en hann skoraði 43 stig, tók 15 fráköst og gaf átta stoðsendingar. Þeir tveir skoruðu því samanlagt 88 stig í nótt.

Þá skoraði Bradley Beal 46 stig fyrir Washington Wizards sem mátti samt þola 123:110 tap gegn Charlotte Hornets og DeMar DeRozan sneri aftur til Toronto í fyrsta sinn eftir að hafa skipt yfir í San Antonio Spurs. Stuðningsmenn Toronto Raptors tóku vel á móti kappanum sem spilaði fyrir þá í níu ár en heimamenn unnu að lokum 120:117 sigur eftir að DeRozan sjálfur tapaði boltanum á ögurstundu í lokasókn San Antonio.

Finninn ungi Lauri Markkanen var hetja Chicago Bulls í góðum útisigri á Orlando Magic, 110:109. Hann skoraði sigurstigin af vítalínunni og var stigahæstur hjá Chicago með 25 stig auk þess að taka 11 fráköst.

Úrslitin
Charlotte Hornets - Washington Wizards 123:110

Indiana Pacers - New Orleans Pelicans 126:111
Orlando Magic - Chicago Bulls 109:110
Toronto Raptors - San Antonio Spurs 120:117
Atlanta Hawks - Detroit Pistons 122:125
New York Knicks - Minnesota Timberwolves 104:115
Memphis Grizzlies - LA Clippers 106:112
Dallas Mavericks - Denver Nuggets 104:114
Oklahoma City Thunder - Utah Jazz 148:147

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert