Get staðið af mér myrkur og kulda fyrir þetta

Danielle Rodriguez.
Danielle Rodriguez. mbl.is/Árni Sæberg

„Maður heyrir margar leiðindasögur um það í hverju leikmenn hafa lent í öðrum löndum. Ég get staðið af mér kuldann og myrkrið fyrir allt það sem ég fæ í staðinn hérna,“ segir Danielle Rodriguez, hin 25 ára gamla Kaliforníumær sem farið hefur á kostum fyrir körfuboltalið Stjörnunnar síðustu þrjú ár.

Hún er leikmaður marsmánaðar hjá Morgunblaðinu og er í liði mánaðarins í þriðja skipti á keppnistímabilinu.

Danielle hefur átt sérstaklega gott tímabil í vetur og átt stóran þátt í besta árangri í sögu Stjörnunnar. Stjarnan varð í 3. sæti deildakeppninnar og komst í úrslitakeppnina í annað sinn frá upphafi, og liðið fékk silfurverðlaun í bikarkeppninni þar sem liðið lék til úrslita í fyrsta sinn. Fram undan er rimma við Keflavík í undanúrslitum Íslandsmótsins þar sem fyrsti leikur er í Keflavík næsta þriðjudag.

„Eftir því sem á tímabilið hefur liðið höfum við áttað okkur betur á okkar styrkleikum og veikleikum, lært betur inn á hverja aðra og við náum núna mun betur saman. Það að komast í bikarúrslitaleikinn og spila þann leik gaf okkur mikið og við viljum spila í svoleiðis andrúmslofti. Við höfum orðið betri með hverjum leiknum,“ segir Danielle, sem hefur gefið langflestar stoðsendingar í deildinni (8,6 að meðaltali í leik) og er í 3. sæti yfir flest stig (25,3 í leik).

Liðsfélagarnir hjálpað mér að gera þetta mitt besta tímabil

„Mér finnst þetta vera mitt besta tímabil og það er að hluta vegna leikmannanna í kringum mig. Þetta er besta liðið sem við höfum haft. Leikmenn eins og Bríet [Sif Hinriksdóttir] stækka völlinn fyrir okkur og búa til pláss fyrir mig að sækja í, sérstaklega þegar skotin detta niður hjá henni. Við erum með hávaxnari leikmenn við körfuna, eins og Rönku [Ragnheiði Benónísdóttur] og Jóhönnu [Björk Sveinsdóttur] og Rögnu Margréti [Brynjarsdóttur] þegar hún spilar, og það hjálpar. Ragna þarf að skoða hvern leik fyrir sig vegna sinna höfuðmeiðsla, en það er gott að geta haft tvo stóra leikmenn á gólfinu. Við erum með reynda leikmenn og góðar skyttur sem ógna vörnum andstæðinganna og létta álagi af mér,“ segir Danielle.

Sjá allt viðtalið við Danielle og úrvalslið marsmánaðar í Dominos-deild kvenna í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert