Haukur Helgi farinn til Rússlands

Haukur Helgi Pálsson.
Haukur Helgi Pálsson. mbl.is/Hari

Haukur Helgi Pálsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, hefur gengið til liðs við rússneska félagið BC Unics og mun því flytjast búferlum til Kazan.

Haukur Helgi kemur frá franska liðinu Nanterre, en hann var í stóru hlutverki þar á síðasta tímabili þar sem liðið hafnaði í fjórða sæti í frönsku 1.deildinni og komst í undanúrslit um meistaratitilinn. Þá fór liðið í átta liða úrslit í Meistaradeildinni.

Haukur Helgi semur til eins árs við Unics, með möguleika á framlengingu um annað ár. Unics hafnaði í öðru sæti í efstu deild í Rússlandi á síðasta tímabili og fór svo alla leið í undanúrslit um meistaratitilinn.

Liðið mun spila í Evrópubikarnum á næstu leiktíð eins og síðasta vetur þar sem það fór í undanúrslit en tapaði fyrir Valencia. Valencia endaði svo á að vinna Martin Hermannsson og lið Alba Berlín í úrslitaleik keppninnar.

mbl.is