Spenntur en líka smá svekktur

Kári undirritar samninginn í dag.
Kári undirritar samninginn í dag. mbl.is/Jóhann Ingi

„Þetta er gaman og ég er spenntur, en ég er líka smá svekktur yfir að geta ekki farið í þetta verkefni í Finnlandi," sagði Kári Jónsson, landsliðsmaður í körfubolta, í samtali við mbl.is í dag. Kári skrifaði undir samning við Hauka í dag, nokkrum dögum eftir að hann rifti samningi sínum við Hels­inki Seagulls frá Finnlandi. 

Kári þurfti að fara í aðgerð á síðasta ári. Hann varð í raun ekki fyr­ir meiðslum held­ur þurfti að grípa inn í vegna vaxt­ar hæl­beins. Hann æfði og spilaði kval­inn síðasta haust en beinið var farið að hafa áhrif á hás­in. Ef ekk­ert hefði verið að gert hefði fer­ill hans í körfu­bolt­an­um orðið stutt­ur.

„Ég verð að koma mér af stað aðeins hægar og á mínum hraða. Um mánaðamótin lét ég Finnana vita af stöðunni á mér. Ég var ekki alveg nógu góður og ekki alveg tilbúinn í að fara í fullt prógramm. Þeir skildu það vel og við ákváðum þetta saman. Þetta var ekkert sem kom á óvart, heldur ég að fyrra bragði að láta þá vita. Þeir tóku þessu mjög vel og ég ber virðingu fyrir þeim."

Kári er byrjaður að æfa og er að koma til. Hann ætlar sér að ná leiknum við nýliða Þórs í 1. umferð Dominos-deildarinnar 3. október næstkomandi. 

„Ég er ágætur núna og er að koma mér af stað. Það er dagamismunur á mér. Ég er að vinna hörðum höndum að því að komast í gír og í körfuboltaform aftur. Það mun taka sinn tíma, en ég mun ná að stjórna álagi hérna og það skiptir miklu máli núna. Ég ætla að verða klár í fyrsta leik.“

Ætlar sér aftur út

Hann er spenntur fyrir tímabilinu hjá Haukum, en liðið er nokkuð breytt frá því á síðustu leiktíð og nýr þjálfari kominn í brúna, Spánverjinn Israel Martin, sem síðast þjálfaði Tindastól. 

„Þetta er virkilega spennandi hópur sem við erum með. Við erum fjölbreyttir leikmenn og við getum gert marga hluti. Spennandi lið er besta orðið yfir það. Israel er svo kominn inn sem þjálfari og það er spennandi. Það verður mjög gaman að læra nýja hluti af honum. Við ætlum að njóta þess að spila.“

Kári ætlar ekki að staldra lengi við á Íslandi og stefnir aftur út í atvinnumennsku. „Það er markmiðið. Ég ætla mér að komast af stað hér og komast á fínt ról í vetur og svo reyna að fara út þegar tækifæri gefst," sagði Kári Jónsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert