Þetta er maraþon, ekki spretthlaup

Nikolas Tomsick með boltann í kvöld.
Nikolas Tomsick með boltann í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við getum enn bætt okkur. Við lítum bara á næsta leik. Við eigum Val í bikarnum næst og svo stórleik gegn Keflavík í næstu umferð,“ sagði Nikolas Tomsick, leikmaður Stjörnunnar, í samtali við mbl.is eftir 73:66-sigur á Tindastóli í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld. 

Stjarnan hefur unnið tíu leiki í röð í deildinni og var liðið með yfirhöndina allan tímann gegn gestunum úr Skagafirði. „Við getum gert betur. Við gerðum mistök, sérstaklega í þriðja leikhluta, en við spiluðum góða vörn og vorum góðir í fráköstunum. Við erum auðvitað ánægðir með sigurinn.“

Tindastóll minnkaði muninn í þrjú stig þegar skammt var eftir, en Stjarnan skoraði fjögur síðustu stigin og tryggði sér verðskuldaðan sigur. 

„Þeir eru með gott lið og við vissum að þeir kæmu með áhlaup og kæmust aftur inn í leikinn. Við sýndum hins vegar mikinn styrk í hvert skipti sem þeir komu með áhlaup. Við komum alltaf til baka og það sýnir að við erum með gott lið.“

Þrátt fyrir tíu sigurleiki í röð vill Tomsick sjá Stjörnuna spila enn betur. „Við verðum betri með hverri vikunni. Þetta er maraþon, ekki spretthlaup. Við ætlum okkur í úrslitin og við höfum nægan tíma til að bæta okkur enn frekar.“

mbl.is