Hlakka til að sjá hvar hann mun enda

Sigtryggur Arnar Björnsson skýtur að körfu Slóvaka í kvöld.
Sigtryggur Arnar Björnsson skýtur að körfu Slóvaka í kvöld. Ljósmynd/KKÍ/Jónas

„Við keyrðum upp hraðann og fengum margar körfur úr hröðum sóknum. Svo fráköstuðum við vel; Tryggvi og Pavel gerðu það vel og allt liðið,“ sagði Sigtryggur Arnar Björnsson, landsliðsmaður í körfubolta, í samtali við mbl.is í kvöld. 

Ísland hafði betur gegn Slóvakíu á heimavelli í forkeppni HM 2023, 83:74. Ísland var með forystu allan seinni hálfleikinn og var sigurinn sanngjarn. „Mér leið eiginlega vel allan leikinn. Við vorum með forystu nánast allan leikinn og mér leið aldrei eins og þetta væri í einhverri hættu.“

Bakvörðurinn, sem leikur með Grindavík, hefur fengið stórt hlutverk í landsliðinu í síðustu tveimur leikjum í fjarveru sterkra leikmanna sem leika með erlendum félagsliðum.  

„Ég geri eins og ég get til að hjálpa liðinu að vinna. Þetta er eins og allir aðrir leikir. Þetta er bara körfubolti. Hvort sem þetta er leikur í deildinni, með landsliðinu eða bara æfingaleikur, þá er þetta bara körfubolti.“

Arnar hrósaði Tryggva Snæ Hlinasyni eftir leik, en hann var langbesti maðurinn á vellinum. „Hann er magnaður, hann er orðinn allt öðruvísi skepna. Hann er geggjaður og ég hlakka til að sjá hvar hann mun enda á ferlinum,“ sagði hann um liðsfélaga sinn. 

Ísland er með einn sigur og eitt tap eftir tvo leiki í forkeppninni, en efstu tvö lið riðilsins fara áfram á næsta stig forkeppninnar. „Það hefði verið gaman að vinna Kósóvó en við náðum að hafa þetta jafnan leik þar. Ef við vinnum þá með tveimur stigum heima þá er þetta í góðum málum hjá okkur,“ sagði Arnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert