Engir meistarar í deildinni hjá Hauki

Haukur Helgi Pálsson í leik með UNICS Kazan í EuroCup.
Haukur Helgi Pálsson í leik með UNICS Kazan í EuroCup. Ljósmynd/Eurocup

Keppni í alþjóðlegu körfuboltadeildinni VTB, þar sem Haukur Helgi Pálsson leikur með UNICS Kazan frá Rússlandi hefur verið hætt vegna kórónuveirunnar og engir meistarar eru krýndir í ár.

Í yfirlýsingu frá stjórn deildarinnar segir framkvæmdastjóri hennar, Ilona Korstin, að eftir atkvæðagreiðslu stjórnarmanna hafi verið komist að þessari niðurstöðu. Þar sem liðin í deildinni komi frá nokkrum löndum og landamærum sumra þeirra hafi verið lokað, félögin megi ekki æfa í höllum sínum og hafi neyðst til að senda erlenda leikmenn sína heim, sé ekki hægt að halda þessu tímabili áfram. Meistarar 2019-20 verði ekki krýndir þar sem íþróttalegum markmiðum hafi ekki verið náð - liðin hafi leikið mismarga leiki og keppninni hafi ekki verið lokið.

Fram kemur að rússneska körfuknattleikssambandið muni ákveða síðar hvað gert verði með úrvalsdeildina þar í landi.

Níu sterkustu lið Rússlands spila í VTB-deildinni og eru að mestu með varalið sín í rússnesku deildakeppninni. Þannig leikur UNICS í rússnesku B-deildinni með sitt varalið. Önnur lið í deildinni koma frá Kasakstan, Hvíta-Rússlandi, Eistlandi og Póllandi.

Haukur Helgi og félagar eru í fjórða sæti VTB-deildarinnar með 12 sigra í 18 leikjum, á eftir Khimki Moskva, CSKA Moskva og Lokomotiv Kuban, en þeir áttu sex leikjum ólokið áður en átta liða úrslitakeppni hæfist. Tvö fyrstnefndu liðin leika jafnframt í Euroleague, sterkustu deild Evrópu, og UNICS hefur í vetur leikið í EuroCup, sem er nokkurskonar B-deild Euroleague. 

UNICS er þar komið í átta liða úrslit og á að mæta þar Partizan Belgrad frá Serbíu en ekki er ljóst hvenær þeir leikir fara fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert