Elvar fyrstur til að spila í Litháen

Elvar Már Friðriksson í leik með Borås síðasta vetur.
Elvar Már Friðriksson í leik með Borås síðasta vetur. Ljósmynd/Borås Basket

Elvar Már Friðriksson, landsliðsmaður í körfuknattleik, er genginn til liðs við Siauliai í Litháen og mun þar með leika þar í landi á næsta keppnistímabili, fyrstur Íslendinga. Karfan.is greinir frá þessu.

Elvar átti mjög gott tímabil með Borås í Svíþjóð á síðasta vetri þar sem hann vann sænska meistaratitilinn með liðinu.

Siauliai hafnaði í áttunda sætinu í Litháen á síðasta tímabili en liðið leikur jafnframt í deild með liðum frá Lettlandi og Eistlandi.

Þjálfari liðsins er Antanas Sireika, fyrrverandi landsliðsþjálfari Litháen en landslið þjóðarinnar hefur lengi verið í fremstu röð og þrívegis fengið bronsverðlaun á Ólympíuleikum, einu sinni á heimsmeistaramóti, og sjö sinnum verið á verðlaunapalli á EM, þar af orðið Evrópumeistari þrisvar, síðast 2003 og spilaði úrslitaleikina 2013 og 2015. Sireika var einmitt þjálfari liðsins þegar það varð Evrópumeistari árið 2003.

Elvar er 25 ára gamall bakvörður og hefur ávallt leikið með Njarðvík á Íslandi, síðast 2018-19, en þá hafði hann verið um skamma hríð í röðum Denain Voltaire í Frakklandi. Hann spilaði jafnframt með háskólaliðum LIU Brooklyn og Barry í Bandaríkjunum.

mbl.is