Smit hjá andstæðingum Íslands

Frá leik Íslands og- Búlgaríu í Laugardalshöllinni en þjóðirnar eiga …
Frá leik Íslands og- Búlgaríu í Laugardalshöllinni en þjóðirnar eiga að mætast á föstudag. mbl.is/Hari

Smit hafa greinst í herbúðum andstæðinga Íslands í Krít á Grikklandi þar sem fara eiga fram leikir í undankeppni EM kvenna í körfuknattleik. 

Mbl.is hafði samband við Hannes S. Jónsson formann KKÍ sem segir engan í íslenska hópnum vera með einkenni. Hann hafi ekki fengið nákvæmar upplýsingar um þau smit sem upp hafa komið hjá hinum þjóðunum að svo stöddu. 

„Hjá hinum þremur þjóðunum hefur fólk greinst jákvætt og okkur var tilkynnt um það. Við höldum að þar sé um leikmenn að ræða en höfum ekki fengið svör við því. Við höfum mótmælt því að leikirnir fari fram sem er þá eins og ítrekun því við höfðum áður mótmælt því að leikirnir færu fram í september og október. Við höfðum áhyggjur af því að þessi staða myndi koma upp og nú er það raunin. Eins og staðan er núna virðast leikirnir vera á dagskrá en væntanlega mun FIBA Europe senda frá sér tilkynningu í dag varðandi framhaldið. 

Ekkert smit hefur greinst í íslenska hópnum og við erum öll einkennalaus. Við höfum ekki átt samneyti við neina einstaklinga í hinum liðunum til þessa og hér eru strangar sóttvarnarreglurm,“ sagði Hannes Jónsson, formaður KKÍ.

Við þetta má bæta að smit virðast hafa komið upp á fleiri stöðum þar sem til stendur að leika í undankeppni EM með sambærilegu sniði og gert er í riðli Íslands.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert