Ég er mjög spenntur

Elvar Már Friðriksson
Elvar Már Friðriksson mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

„Ég er mjög spenntur fyrir þeim. Það er búin að vera bið í svolítinn tíma eftir þessum leikjum. Það er gaman að vera kominn að hitta strákana. Þetta er skemmtilegur hópur og mikil spenna,“ sagði Elvar Már Friðriksson landsliðsmaður í körfubolta í samtali sem birtist á Facebook-síðu KKÍ. 

Hann er kominn ásamt liðsfélögum sínum í íslenska landsliðinu til Slóvakíu þar sem liðið leikur við Lúxemborg og Kósóvó 26. og 28. nóvember. Elvar hefur leikið afar vel með Siauliai í efstu deild Litháens á leiktíðinni og verið einn besti leikmaður deildarinnar. 

„Það er upplifun. Það er mikið körfuboltaland og fólk lifir fyrir körfuboltann þarna og þetta er þjóðaíþróttin þarna. Ég hef átt mjög góða fyrstu mánuði þarna og líkar vel. Fólkið er mjög gott og ég er ánægður með að vera þar,“ sagði Elvar, en leikið er án áhorfenda um þessar mundir og flest lokað í Litháén. 

„Já, maður hefur ekki alveg fengið að upplifa þessa stemningu sem ríkir í kringum körfubolta því áhorfendur eru bannaðir og það er allt í lás. Allir veitingastaðir og allt er lokað. Fólk er mest megnis að halda sér inni. Upplifunin er því kannski ekki alveg eins,“ sagði Elvar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert