Nýtt ofurlið í mótun í Brooklyn

James Harden er á leið til Brooklyn.
James Harden er á leið til Brooklyn. AFP

Stórstjarnan James Harden er að ganga til liðs við Brooklyn Nets í bandarísku NBA-deildinni í körfuknattleik.

Það er Adrian Wojnarowski, íþróttafréttamaður hjá ESPN, sem greinir frá þessu en Harden hefur leikið með Houston Rockets frá árinu 2012.

Hann hefur verið einn besti leikmaður NBA-deildarinnar undanfarin ár og var meðal annars valinn besti leikmaður deildarinnar tímabilið 2018.

Þá hefur enginn skorað meira í deildinni, undanfarin þrjú tímabil, en hann hefur verið orðaður við brottför frá Houston undanfarnar vikur þar sem hann var sagður ósáttur í herbúðum félagsins.

Hjá Brooklyn hittir hann fyrir þá Kyrie Irving og Kevin Durant sem hafa verið á meðal bestu leikmanna deildarinnar undanfarin ár.

Irving hefur einu sinni orðið NBA-meistari, árið 2016 með Cleveland Cavaliers, en Durant hefur tvívegis orðið meistari, 2017 og 2018 með Golden State Warriors.

Það er því ljóst að Broolyn Nets er orðið eitt sigurstranglegasta liðið til þess að lyfta meistarabikarnum í vor með tilkomu Hardens en Steve Nash, fyrrverandi leikstjórnandi Phoenix Suns, er þjálfari liðsins.

Brooklyn hefur ekki farið neitt sérstaklega vel af stað í deildinni en liðið er í sjöunda sæti Austurdeildarinnar með sex sigra og sex töp í fyrstu tólf leikjum sínum. 

Kevin Durant og Kyrie Irving leika með Brooklyn Nets.
Kevin Durant og Kyrie Irving leika með Brooklyn Nets. AFP
mbl.is