Ótrúleg endurkoma gegn meisturunum

Stephen Curry skoraði 26 stig gegn Los Angeles Lakers.
Stephen Curry skoraði 26 stig gegn Los Angeles Lakers. AFP

Stephen Curry skoraði 26 stig fyrir Golden State Warriors þegar liðið vann ótrúlegan tveggja stiga sigur gegn meisturum Los Angeles Lakers í bandarísku NBA-deildinni í körfuknattleik í Los Angeles í nótt.

Leiknum lauk með 115:113-sigri Golden State en þetta var einungis fjórða tap Lakers á tímabilinu.

Lakers-menn byrjuðu leikinn af miklum krafti og voru með öruggt forskot í hálfleik, 64:48. Golden State tókst að minnka forskot Lakers í ellefu stig í þriðja leikhluta en í fjórða leikhluta kom Draymond Green Golden State yfir, 110:108, þegar nokkrar mínútur voru til leiksloka.

Golden State lét forystuna ekki af hendi eftir þetta en Golden State er með sjö sigra í áttunda sæti Vesturdeildarinnar á meðan Lakers er áfram í efsta sætinu með ellefu sigra.

Þá skoruðu þeir James Harden og Kevin Durant 64 stig á milli sín þegar Brooklyn Nets vann 125:123-sigur gegn Milwaukee Bucks í Brooklyn.

Giannis Antekounmpo var stigahæstur Milwaukee-manna en liðin skiptust á að leiða, allan leikinn.

Brooklyn Nets er í fimmta sæti Austurdeildarinnar með níu sigra en Milwaukee er í öðru sætinu með níu sigra líka.

Úrslit næturinnar í NBA:

Atalanta Hawks 108:97 Minnesota Timberwolves
Portland Trail Blazers 104:125 San Antonio Spurs
Memphis Grizzlies 108:104 Phoenix Suns
Brooklyn Nets 125:123 Milwaukee Bucks
Toronto Raptors 111:93 Dallas Mavericks
Miami Heat 113:107 Detroit  Pistons
Chicago Bulls 125:120 Houston Rockets
Los Angeles Lakers 113:115 Golden State Warriors 

mbl.is