Slóveninn tryggði Dallas sigur gegn Boston

Luka Doncic tryggði sínu liði sigur gegn Boston Celtics.
Luka Doncic tryggði sínu liði sigur gegn Boston Celtics. AFP

Luka Doncic átti enn einn stórleikinn fyrir Dallas Mavericks þegar liðið fékk Boston Celtics í heimsókn í bandarísku NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.

Doncic skoraði 31 stig, tók tíu fráköst og gaf átta stoðsendingar en leiknum lauk með 110:107-sigri Dallas.

Mikið jafnræði var með liðunum allan leikinn en Boston leiddi með einu stigi í hálfleik, 56:55.

Dallas var fjórum stigum yfir fyrir þriðja leikhluta en þegar tíu sekúndur voru til leiksloka jafnaði Jaylen Brown metin fyrir Boston í 107:107.

Það var hins vegar Doncic sem átti síðasta orðið í leiknum en hann skoraði þriggja stiga körfu fyrir Dallas þegar tæp sekúnda var til leiksloka og þar við sat.

Dallas er í níunda sæti Vesturdeildarinnar með fimmtán sigra en Boston er í sjötta sæti Austurdeildarinnar með fimmtán sigra.

Úrslit næturinnar í NBA:

Cleveland Cavaliers 112:111 Atalanta Hawks
Orlando Magic 93:105 Detroit Pistons
Brooklyn Nets 127:118 Sacramento Kings
Dallas Mavericks 110:107 Boston Celtics
New York Knicks 106:114 Golden State Warriors
Toronto Raptors 102:109 Philadelphia 76ers
Milwaukee Bucks 139:112 Minnesota Timberwolves
Denver Nuggets 111:106 Portland Trail Blazers

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert