Clippers vann grannaslaginn örugglega

Kawhi Leonard átti góðan leik fyrir LA Clippers í kvöld.
Kawhi Leonard átti góðan leik fyrir LA Clippers í kvöld. AFP

LA Clippers átti ekki í vandræðum með nágranna sína í LA Lakers í NBA-deildinni í körfuknattleik í kvöld. Clippers vann að lokum 18 stiga sigur sem var aldrei í hættu.

Í liði Clippers voru stigahæstir þeir Marcus Morris, Kawhi Leonard og Paul George. Morris var með 22 stig og tók einnig sjö fráköst, Leonard náði tvöfaldri tvennu með 19 stig, 10 fráköst og átta stoðsendingar, og George gerði 16 stig og tók sjö fráköst í 104:86-sigri.

Montrezl Harrell var stigahæstur Lakers-manna með 18 stig gegn sínum gömlu félögum í Clippers, auk þess sem hann tók sex fráköst.

Lakers náðu sér ekki á strik og sakna sárlega lykilmannanna LeBrons James og Anthonys Davis, auk þess sem Andre Drummond, sem er nýgenginn til liðs við meistarana, meiddist í fyrsta leik sínum á dögunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert