Skoraði 40 í grannaslagnum og kom Nets á toppinn

Kyrie Irving treður boltanum í körfu New York Knicks í …
Kyrie Irving treður boltanum í körfu New York Knicks í grannaslagnum í Barclays Center í nótt. AFP

Kyrie Irving fór fyrir liði Brooklyn Nets í nótt í sætum sigri í grannaslag gegn New York Knicks og skaut liðinu upp í toppsæti Austurdeildar NBA í körfubolta.

Brooklyn vann nauman sigur, 114:112, en er nú skrefi á undan Philadelphia 76ers á toppnum með 35 sigra í 51 leik á meðan 76ers eru með 34 sigra í 50 leikjum.

Irving skoraði 40 stig í leiknum og endaði á þriggja stiga körfu sem kom Brooklyn í 112:107 þegar ein mínúta var eftir. New York náði að jafna, 112:112, en Jeff Green tryggði Brooklyn sigurinn af vítalínunni með því að setja niður bæð skot sín þegar 3,7 sekúndur voru eftir.

Brooklyn missti James Harden af velli snemma leiks. Hann hafði misst af tveimur leikjum vegna stífleika aftan í læri og þau eymsli tóku sig upp þegar aðeins fjórar mínútur voru búnar af leiknum.

Phoenix Suns vann sinn sjötta leik í röð og lagði Houston Rockets á útivelli, 133:130. Devin Booker skoraði 36 stig, þar af 18 í fjórða leikhluta, fyrir Phoenix sem styrkti stöðu sína í öðru sæti Vesturdeildar og sækir að Utah Jazz sem mátti sætta sig við ósigur í Dallas.

Þar skoraði Slóveninn öflugi Luka Doncic 31 stig fyrir Dallas og tók 9 fráköst en Utah heldur efsta sætinu vestan megin með 38 sigra í 50 leikjum. Phoenix er með 35 sigra í 49 leikjum í öðru sætinu. 

Darius Garland átti sinn besta NBA-leik á ferlinum í nótt en hann skoraði 37 stig fyrir Cleveland Cavaliers í sannfærandi útisigri á San Antonio Spurs, 125:101.

Úrslitin í nótt:

Toronto - Washington 103:101
Brooklyn - New York 114:112
Dallas - Utah 111:103
Minnesota - Sacramento 116:106
Oklahoma City - Detroit 108:132
San Antonio - Cleveland 101:125
Houston - Phoenix 130:133

mbl.is