Mögnuð frammistaða Njarðvíkingsins

Elvar Már Friðriksson í leik með Siauliai.
Elvar Már Friðriksson í leik með Siauliai. Ljósmynd/LKL

Elvar Már Friðriksson landsliðsmaður í körfuknattleik átti enn einn stórleikinn með Siauliai í dag þegar lið hans vann góðan sigur á Pieno Zvaigzdes í litháísku A-deildinni, 103:90.

Elvar skoraði hvorki fleiri né færri en 33 stig í leiknum og var með tvöfalda tvennu því hann átti jafnframt 12 stoðsendingar. Auk þess stal hann boltanum sex sinnum af andstæðingunum. Þá fékk hann framlagstöluna 51 sem er afar sjaldséð í körfuboltanum. Elvar lék í 31 mínútu af 40 í leiknum í dag.

Lið hans var undir í hálfleik, 45:46, en sneri leiknum sér í hag í þriðja leikhluta. Siauliai er nú komið með 11 sigra í 30 leikjum og  styrkti stöðu sína í sjöunda sætinu. Liðið sat á botni tíu liða deildarinnar í nær allan vetur en hefur nú unnið fimm leiki á stuttum tíma og steig í dag stórt skref í átt að sæti í úrslitakeppninni.

mbl.is