Ætlum við að leyfa þeim að vinna leðjuslaginn?

Larry Thomas sækir að körfunni í Garðabænum í kvöld.
Larry Thomas sækir að körfunni í Garðabænum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lár­us Jóns­son, þjálf­ari Þórs frá Þor­láks­höfn, var ómyrkur í máli er mbl.is náði tali af honum eftir 78:58-tap gegn Stjörnunni í fjórða leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik í kvöld.

„Stjarnan var betri í körfubolta heldur en við í kvöld, þeir setja tóninn strax í fyrri hálfleik með því að taka ellefu sóknarfráköst,“ sagði Lárus um leikinn. „Það er ekkert að varnarleiknum, fáum á okkur 78 stig, það er ekkert að því. Við erum að spila góða vörn en þeir fá alltaf of mörg tækifæri í hverri sókn og komast þannig í gírinn.“

Liðin mætast á laugardaginn í Þorlákshöfn í oddaleik, hreinum úrslitaleik um hvort liðið mætir Keflavík í úrslitunum um Íslandsmeistaratitilinn. „Nú er þetta auðvitað spurning um taugar og að vera með rétt spennustig. Ætlum við að leyfa þeim að vinna leðjuslaginn eða ætlum við að taka þessa baráttu? Það lið sem vinnur frákastabaráttuna hefur unnið leikina í þessu einvígi.“

Lárus Jónsson
Lárus Jónsson Ljósmynd/Þórir Tryggvason
mbl.is