Grindvíkingar semja við Bandaríkjamann

Travis Atson í leik með liði St. Francis-háskólans á síðasta …
Travis Atson í leik með liði St. Francis-háskólans á síðasta tímabili. Ljósmynd/Grindavík

Bandaríski bakvörðurinn Travis Atson hefur samið við körfuknattleiksdeild Grindavíkur um að leika með karlaliði félagsins á tímabilinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá körfuknattleiksdeild félagsins.

Atson kom til landsins um nýliðna helgi og hefur þegar tekið þátt í tveimur æfingum með Grindavík þar sem hann hefur þótt standa sig vel.

Atson er 196 sentimetrar á hæð og bakvörður að upplagi en getur einnig spilað sem framherji.

Hann kemur úr bandaríska háskólaboltanum þar sem hann lék með St. Francis-háskólanum í New York-borg. Atson var þar með tæp 15 stig að meðaltali í leik og var einnig öflugur í fráköstum.

Í tilkynningunni segir að Atson sé í fínu formi og að vonir standi til þess að hann verði kominn með leikheimild fyrir næsta heimaleik félagsins gegn KR þann 21. október næstkomandi.

„Við bjóðum Travis Atson velkominn til félagsins og vonum að hann verði happafengur fyrir Grindavík,“ segir að lokum í tilkynningunni.

mbl.is