Brooklyn vann í endurkomu Irvings

Kyrie Irving eldlínunni í nótt.
Kyrie Irving eldlínunni í nótt. AFP

Kyrie Irving lék sinn fyrsta leik fyrir Brooklyn Nets í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt þegar liðið vann átta stiga útisigur gegn Indiana Pacers.

Leiknum lauk með 129:121-sigri Brooklyn en Irving hefur ekki viljað láta bólusetja sig fyrir kórónuveirunni og því hefur hann ekki fengið að æfa með Brooklyn-liðinu það sem af er tímabili.

Brooklyn er hins vegar í vandræðum með meiðsli og þá hefur kórónuveiran herjað á liðið og forráðamenn félagsins ákváðu því að hleypa Irving aftur inn í hópinn.

Hann skoraði 22 stig í nótt, ásamt því að gefa fjórar stoðsendingar en Kevin Durant var stigahæstur í liði Brooklyn með 39 stig, átta fráköst og sjö stoðsendingar.

Brooklyn er í öðru sæti austurdeildarinnar með 24 sigra í 36 leikjum en Indiana Pacers er í þrettánda sæti austurdeildarinnar með 14 sigra.

Úrslit næturinnar í NBA:

Charlotte – Detroit 140:111
Orlando – Philadelphia 106:116
Washington – Houston 111:114
Boston – San Antonio 97:99
Dallas – Golden State 99:82
Indana – Brooklyn 121:129
Milwaukee – Toronto 111:117
Minnesota – Oklahoma 98:90
Denver – Utah 109:115
Portland – Miami 109:115
Sacramento – Atlanta 102:108

mbl.is