Rekinn út úr húsi og sneri aftur með járnstöng

Nokkuð ótrúlegt atvik átti sér stað í rúmensku úrvalsdeildinni í körfuknattleik um síðustu helgi í kjölfar þess að Kúbverjinn Karel Guzman var rekinn út úr húsi í leik Cluj-Napoca gegn Oradea.

Í öðrum leikhluta hrinti Serbinn Nikola Markovic, leikmaður Oradea, Guzman, leikmanni Cluj-Napoca.

Guzman brást ókvæða við og virtist ætla að ráðast á Markovic en liðsfélagar Kúbverjans héldu aftur af honum.

Markovic fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu á meðan Guzman var útilokaður frá frekari þátttöku í leiknum.

Rannsaka atvikið

Ekki var Guzman sáttur við það, yfirgaf höllina, gekk þar að byggingarsvæði í grenndinni og greip járnstöng.

Vopnaður henni gekk hann aftur inn í höllina og fram hjá öryggisverði áður en liðsfélagi hans, Serbinn Andrija Stipanovic, stöðvaði hann. Öryggisvörðurinn fjarlægði svo járnstöngina.

Rúmenska körfuknattleikssambandið rannsakar nú atvikið og Cluj-Napoca mun sömuleiðis gera það. Félagið sendi frá sér yfirlýsingu þar sem gjörðir Guzmans voru fordæmdar.

Guzman baðst sjálfur afsökunar á gjörðum sínum á Instagram-aðgangi sínum.

Á körfuboltasíðunni Basket News má sjá myndskeið af því þegar Guzman og Markovic lenti saman og þegar Kúbverjinn snýr aftur í höllina vopnaður járnstönginni.

mbl.is