Sætt að verða Íslandsmeistari tæpu ári eftir barnsburð

Embla fagnar með liðsfélögum sínum eftir leik.
Embla fagnar með liðsfélögum sínum eftir leik. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér líður ótrúlega vel og þetta er ótrúlega sætt. Þetta er loksins komið í höfn,“ sagði Embla Kristínardóttir, leikmaður Vals, í samtali við mbl.is eftir að hún átti stóran þátt í að Valur varð Íslandsmeistari í körfubolta.

Valur vann 72:68-heimasigur á Keflavík og tryggði sér í leiðinni 3:1-sigur í úrslitaeinvíginu. Keflavík var yfir 37 mínútur af 40, en Valur var yfir þegar mestu máli skipti.

„Við vorum að elta allan leikinn en við vissum líka að ef leikurinn væri jafn, væri þetta í okkar höndum. Við pössuðum okkur á því að halda þessu jöfnu. Þá snýst þetta um hvort liðið er sterkara á lokasprettinum og við vorum sterkari í dag,“ útskýrði Embla.

Embla Kristínardóttir var hetja Vals í kvöld.
Embla Kristínardóttir var hetja Vals í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hún skoraði fimm síðustu stig Vals og tryggði liðinu þannig titilinn, gegn uppeldisfélaginu. Þar varð hún meistari í eina skiptið, þar til í kvöld, fyrir áratug síðan. Embla skoraði fyrst þrist og kom Val tveimur stigum yfir og skoraði síðan tvö síðustu stigin á vítalínunni.

„Þetta var ekki teiknað upp svona en ef ég fæ boltann og er opin, þá yfirleitt skýt ég bara. Mér líður yfirleitt vel þegar ég er að skjóta og þetta var ekkert sem ég var að hugsa mikið um. Ég fékk bara boltann og ég skaut. Mér leið líka vel á vítalínunni, þar sem ég tek mörg vítaskot á æfingu. Þetta var sama gamla,“ sagði hún.

Embla samdi við Val í nóvember á síðasta ári, en hún eignaðist sitt annað barn í júní síðastliðinn. Það var því ansi sætt fyrir Emblu að verða Íslandsmeistari, svo skömmu eftir að hafa orðið tveggja barna móðir.

Embla í baráttunni í kvöld.
Embla í baráttunni í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er mjög ofarlega á mínum ferli. Það er mjög sætt fyrir mig að koma að vinna eftir að eiga barn fyrir stuttu og lenda í ýmislegu,“ sagði hún.

Þrátt fyrir að Valskonur hafi komið, séð og sigrað sagði Embla að umtalið hafi aðallega verið um andstæðinga Vals í úrslitakeppninni til þessa. Nú megi hins vegar fara tala um Valsliðið.

„Í gegnum alla Haukaseríuna voru það Haukar sem töpuðu fyrstu tveimur, unnu svo tvo í röð og töpuðu svo aftur þriðja. Það sama átti við um Keflavík. Keflavík tapaði fyrstu tveimur, svo vann Keflavík einn og nú tapaði Keflavík í kvöld. Ég vona að fólk fari nú að tala um Val og að Valur hafi hafi unnið þessa leiki. Valur er Íslandsmeistari,“ sagði Embla ákveðin að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert