Gamla ljósmyndin: Móhíkanakambur

Morgunblaðið/Þorkell Þorkelsson

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Pétur Ingvarsson þáverandi leikmaður Hauka í efstu deild í körfuknattleik vakti nokkra athygli þegar hann mætti á parketið á tíunda áratugnum og skartaði þessum fína móhíkanakambi. Slík klipping var öllu algengari áratug áður eða svo upp úr 1980 þegar pönkið náði fótfestu á Íslandi.

Myndina tók Þorkell Þorkelsson, sem myndaði lengi fyrir Morgunblaðið, í Strandgötunni í Hafnarfirði þar sem Haukar heimaleiki sína á árum áður. Í dag leika Haukar í Ólafssal á Ásvöllum en salurinn er kenndur við Ólaf Rafnsson heitinn sem einmitt lék áður í treyju númer 6 hjá Haukum. Ungir menn vilja greinilega fá áritun hjá Pétri eftir að flautað var til leiksloka og eru hinir ánægðustu. 

Pétur var litríkur leikmaður sem fyrst um sinn var í skugganum af bróður sínum Jóni Arnari Ingvarssyni sem var geysilega hæfileikaríkur og sýndi það snemma. Smám saman varð Pétur meira áberandi í deildinni og tímabilið 1994-1995 komst hann í hóp þeirra íslensku leikmanna sem hafa náð að skora 20 stig að meðaltali á einu tímabili í efstu deild. Á því tímabili setti hann persónulegt met í stigaskorun þegar hann skoraði 39 stig í leik á móti Tindastóli sem Haukar unnu 95:82. 

Pétur lék með Haukum og Hamri í Hveragerði frá 1989 til 2005 en síðustu árin var hann spilandi þjálfari hjá Hamri. Þar þótti honum takast afar vel upp og var kosinn þjálfari ársins á lokahófi KKÍ árið 2001. Pétur stýrir nú karlaliði Keflavíkur en hefur einnig þjálfað Hauka, Skallagrím og Breiðablik en einnig kvennalið ÍS. Keflavíkur mætir einmitt Breiðabliki í deildinni á fimmtudaginn. Uppeldisfélag Péturs, Haukar, er aftur komið í efstu deild og á fimmtudaginn tekur liðið á móti Hetti. 

Fyrir áhugafólk um ættfræði í íþróttalífinu er hægt að tína ýmislegt til. Faðir Péturs og Jón Arnars er Ingvar Jónsson sem gjarnan var kallaður faðir körfuboltans í Hafnarfirði. Sonur Péturs, Hilmar, er atvinnumaður í Þýskalandi og Sigurður sonur Péturs leikur með Keflavík. Hilmar, Sigurður og Kári Jónsson landsliðsmaður eru bræðrasynir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert