Segir að McGregor verði frá í eitt ár  

Conor McGregor og Dana White í síðustu viku við kynningu …
Conor McGregor og Dana White í síðustu viku við kynningu á bardagan McGregor við Dustin Poirier. AFP

Dana White, forseti UFC í blönduðum bardagalistum, segir að írski bardagakappinn Conor McGregor verði frá í eitt ár.

McGregor fótbrotnaði í bardaga sínum gegn Dustin Poirier um helgina og gekkst undir aðgerð í Las Vegas, þar sem bardaginn fór fram, vegna brots á sköflungi síðastliðinn sunnudag.

„Mér skilst að hann hafi verið útskrifaður af spítalanum rétt í þessu. Hann verður í Los Angeles í einhvern tíma. Ég veit ekki hvort hann flýgur heim eða hvað hann gerir,“ sagði White í samtali við TMZ.

Spurður hvenær hann byggist við McGregor aftur í búrið til að berjast sagði White: „Hann snýr aftur eftir ár.“

„Allt gekk samkvæmt áætlun og mér líður frábærlega. Ég verð á hækjum í sex vikur og svo hefst endurhæfing. Við höldum áfram, byggjum okkur upp og komum til baka betri en nokkru sinni fyrr,“ sagði McGregor sjálfur í myndskeiði sem hann birti á twitteraðgangi sínum í byrjun vikunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert