Smitaðist og kemst ekki á Ólympíuleikana

Bryson DeChambeau greindist smitaður af kórónuveirunni.
Bryson DeChambeau greindist smitaður af kórónuveirunni. AFP

Bandaríski kylfingurinn Bryson DeChambeau neyddist til að hætta við þátttöku í Ólympíuleikunum í Tókýó eftir að hafa greinst smitaður af kórónuveirunni.

Það kom í ljós þegar hann var að búa sig undir ferðina til Japans. Patrick Reed hefur verið valinn í hans stað og keppir í golfi á leikunum fyrir hönd Bandaríkjanna ásamt Justin Thomas, Collin Morikawa og Xander Schauffele. Þetta verða aðrir leikarnir hjá Reed en keppni í golfi hefst á leikunum á þriðjudaginn.

„Það eru gríðarleg vonbrigði að geta ekki keppt með bandaríska liðinu á Ólympíuleikunum. Það var mér afar mikilvægt og mikill heiður að vera valinn til að keppa fyrir hönd þjóðar minnar. Nú einbeiti ég mér að því að hrista þetta af mér og hlakka til að keppa á ný þegar ég fæ leyfi til þess,“ sagði hinn 27 ára gamli DeChambeau um tíðindin en hann er í sjötta sæti heimslista karla í golfi.

mbl.is