Vann ólympíugull skömmu eftir viðbeinsbrot

Tom Pidcock sigurreifur með Ólympíugullið sitt eftir sannfærandi sigur í …
Tom Pidcock sigurreifur með Ólympíugullið sitt eftir sannfærandi sigur í fjallahjólreiðum karla í morgun. AFP

Bretinn Tom Pidcock gerði sér lítið fyrir og vann ólympíugull í fjallahjólreiðum karla með afar sannfærandi hætti í morgun þegar hjólað var þvert yfir Japan.

Pidcock viðbeinsbrotnaði á æfingu fyrir aðeins tveimur mánuðum og þurfti að gangast undir skurðaðgerð vegna þess.

Þrátt fyrir það var hann byrjaður að æfa á ný aðeins sex dögum eftir brotið og lét hafa eftir sér að hann myndi vinna gull á leikunum í Tókýó.

Einhver var innistæðan fyrir þeirri yfirlýsingu því Pidcock var 20 sekúndum á undan næsta keppanda, Mathias Flückiger frá Sviss, sem var fyrir keppnina í morgun númer eitt á heimslistanum í fjallahjólreiðum.

„Þetta er fremur óraunverulegt. Það er svolítið klikkað að ég varð ólympíufari og var að reyna að segja sjálfum mér í byrjun keppninnar að það væri bara merkilegt að vera hér yfirhöfuð,“ sagði Pidcock í samtali við Eurosport eftir sigurinn.

Hann hafði ekki tekið þátt í keppni frá því að hann viðbeinsbrotnaði en hafði þó æft af krafti. „Ég hef æft mjög vel og vissi að ég væri í frábæru formi en það er alltaf smá efi til staðar þegar maður hefur ekki tekið þátt í keppni.

En þegar keppnin hófst vissi ég að ég væri á góðum stað. Mér leið augljóslega ekki vel í hitanum, en það sögðu mér allir að ekki nokkrum manni myndi líða vel í honum,“ bætti Pidcock við, en um 30 gráðu hiti, heiðskírt og mikill raki er í lofti víðs vegar um Japan um þessar mundir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert