Allt eða ekkert hjá Guðna

Guðni Valur Guðnason í kasthringnum á Ólympíuleikvanginum í Tókýó aðfaranótt …
Guðni Valur Guðnason í kasthringnum á Ólympíuleikvanginum í Tókýó aðfaranótt föstudags. AFP

Guðmundur Karlsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari og Íslandsmethafi í sleggjukasti, fylgdist grannt með þegar Guðni Valur Guðnason keppti í kringlukasti á Ólympíuleikunum í Tókýó aðfaranótt föstudags. Guðni Valur fékk þrjú köst en öll voru þau ógild og hann því úr leik.

„Þetta er auðvitað mjög viðkvæmt þegar maður er með þrjú köst. Kalt metið fannst mér þetta vera svona „allt eða ekkert“ hjá honum við að reyna að ná inn í úrslitin. Hann lét svolítið vaða á þetta. Séð utan frá var spennustigið kannski aðeins of hátt og þá detta svona tæknileg smáatriði aðeins út, en þetta var bara hárfínt framhjá.

Ég held að ef hann hefði komið fyrsta kasti sínu inn í geira þá hefði það verið með nokkru afli í og þá nokkurn veginn nógu langt til þess að eiga séns á því að komast inn. Svo þegar það eru 16 keppendur og þú bíður eftir öðrum 15 að kasta kasti númer tvö, þú hefur bara þrjú köst, þá minnkar spennustigið ekkert á milli og menn hafa kannski ekki náð að höndla það,“ sagði Guðmundur við Morgunblaðið en hann starfar nú sem framkvæmdastjóri Frjálsíþróttasambands Íslands.

Guðni Valur var eini frjálsíþróttamaður Íslands á leikunum og sagði Guðmundur að því hefði vitanlega fylgt aukin pressa. „Þetta er náttúrlega svolítið áberandi þegar við erum bara með einn keppanda, þegar það gengur ekki upp hjá honum. Það er voða erfitt að setja eitthvað beint út á þetta. Þetta er svolítið svona „stöngin inn, stöngin út“. Hann setti allt í þetta og það gekk bara ekki í þetta sinn. Það þarf einfaldlega að vinna aðeins með það og greina hvað fór úrskeiðis og hvað má betur fara í framhaldinu.“

Erum langt á eftir

Keppendur fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikum hafa ekki verið jafn fáir síðan á leikunum árið 1964, sem fóru einmitt einnig fram í Tókýó. Þá, líkt og í ár, voru keppendur aðeins fjórir. Hvað þarf að laga til þess að fjölga íslenskum keppendum á Ólympíuleikum og öðrum stórmótum?

„Það er ansi margt. Í rauninni er þetta samspil afreksstefnu, stefnu stjórnvalda, samþykki samfélagsins fyrir því að setja aukinn kraft í íþróttirnar, mannvirkja og aðstöðu sem þarf að verða miklu betri til þess við getum átt einhvern séns. Þegar maður hefur kynnt sér hvað er í gangi í löndunum í kringum okkur sést að við erum langt á eftir.

Við þurfum einhvers staðar að fara að stíga niður fæti og taka næstu skref í þessu jákvæða upphafi sem við höfum t.d. gert með afrekssjóði ÍSÍ, í sameiningu með ÍSÍ og stjórnvöldum,“ sagði Guðmundur.

Viðtalið við Guðmund má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert