Leyft að keppa en síðar sviptur gullinu

Muhammad Ziyad Zolkefli kastar til sigurs í Tókýó en þó …
Muhammad Ziyad Zolkefli kastar til sigurs í Tókýó en þó ekki. AFP

Dómari í frjálsíþróttakeppni Ólympíumóts fatlaðra, Paralympics, tók þá ákvörðun að dæma keppanda úr leik í kúluvarpi í gær og er ákvörðunin mjög umdeild. 

Keppandinn, Muhammed Ziyad Zolkefli frá Malasíu, kastaði nefnilega lengst allra í kúluvarpinu í flokki F20. Taldi sig þar með hafa unnið til gullverðlauna. Skiljanlega. 

Zolkefli hafði mætt þremur mínutum of seint til keppni. Um það virðist ekki vera deilt en honum var hins vegar leyft að keppa. Þótti hann gefa fullnægjandi skýringar á óstundvísinni og fékk að keppa. 

Að keppni lokinni komst hins vegar dómari að annarri niðurstöðu og dæmdi keppandann úr leik. Að mati dómarans hafði keppandinn ekki fullnægjandi afsökun fyrir óstundvísinni. 

Alþjóða Paralympicsnefndin stendur við bakið á dómaranum og ver ákvörðunina. Hefur það fallið í grýttan jarðveg, ekki síst í Malasíu. 

Malasíski þingmaðurinn Fahmi Fazil fór sem dæmi mikinn vegna málsins. „Fullkomlega til skammar. Þið áttuð ekki að leyfa keppandanum að keppa ef hann kom raunverulega of seint. Ekki ræna Ziayd gullverðlaunum sem hann hefur unnið fyrir,“ skrifaði þingmaðurinn á samfélagsmiðlum. 

Ráðherra íþróttamála í Malasíu hefur falið íþróttasambandi landsins að rannsaka málið en áfrýjun ákvörðunar dómarans var hafnað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert