Öruggur sigur Íslandsmethafans

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir kemur langfyrst í mark í dag.
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir kemur langfyrst í mark í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslandsmethafinn Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir vann öruggan sigur í 60 metra hlaupi á Reykjavíkurleikunum í Laugardalshöllinni í dag. Hún hljóp á 7,58 sekúndum en Íslandsmet hennar, sem hún deilir með Tiönu Ósk Whitworth, er 7,47 sekúndur. 

Melkorka Rán Hafliðadóttir varð önnur á tímanum 7,96 sekúndum og Rut Sigurðardóttir þriðja á 8,18 sekúndum. Guðbjörg keppir einnig í 200 metra hlaupi í dag klukkan 14:30 þar sem hún freistar þess að bæta Íslandsmet Silju Úlfarsdóttur. 

Í 60 metra hlaupi karla fór Kolbeinn Höður Gunnarsson með öruggan sigur af hólmi. Hann hljóp á 6,87 sekúndum. Sveinbjörn Óli Svavarsson varð annar á tímanum 7,06 sekúndum og Birgir Jóhannes Jónsson þriðji á 7,07 sekúndum.

Kolbeinn Höður Gunnarsson vann 60 metra hlaupið í karlaflokki.
Kolbeinn Höður Gunnarsson vann 60 metra hlaupið í karlaflokki. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert