Áfangi í olíuleit á Drekasvæðinu

Í janúar sl. var leyfi vegna leitar og vinnslu kolefna …
Í janúar sl. var leyfi vegna leitar og vinnslu kolefna á Drekasvæðinu undirritað í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. mbl.is/Styrmir Kári

Eitt af stærri olíufélögum heims, CNOOC Ltd. frá Kína, hefur í dag gengið inn í umsókn um leitar- og vinnsluleyfi olíu og gass á Drekasvæðinu, ásamt íslenska olíufélaginu Eykon Energy ehf.

„Þetta má telja marka tímamót í sögu olíuleitar Íslendinga, enda hefur félag af sambærilegri stærðargráðu ekki áður sýnt áhuga sinn á Drekasvæðinu í verki,“ segir í tilkynningu frá Eykon Energy.

Fram kemur, að CNOOC sé eitt af þremur stóru olíufélögunum í Kína. Það sé skráð í kauphöllum Hong Kong og New York og sé markaðsvirði þess í kringum 79 milljarðar dollara – rúmlega 9.600 milljarðar íslenskra króna. Það sé því um það bil hundrað sinnum stærra en þau fyrirtæki sem hafi fengið úthlutað leyfum á Drekasvæðinu, til samans.

Þá segir, að CNOOC stundi leit og vinnslu á olíu og gasi í öllum heimsálfum. Fyrirtækið sé t.a.m. með stærri fyrirtækjum í vinnslu olíu og gass í Kanada í gegnum dótturfélag sitt, Nexen. Það sé einnig einn stærsti leyfishafinn í breska hluta Norðursjávar.

Mögulega mun norska ríkisolíufélagið Petoro bætast við hópinn, verði umsóknin samþykkt, en norska ríkið ákvað sem kunnugt er að Petoro yrði hluthafi í þeim tveimur leyfum sem búið er að úthluta á Drekasvæðinu, að því er fram kemur í tilkynningunni.

Fjárhagslegir hagsmunir ríkisins tryggðir

„Vart þarf að taka fram, að kínverska fyrirtækið verður eins og hver annar þátttakandi í olíuleitar- og vinnsluleyfinu, verði umsóknin samþykkt. Það gengur inn í umsóknina að frumkvæði Eykons Energy, sem er íslenskt félag. Fáist leyfið, hlýtur félagið ekki nein óvenjuleg réttindi, heldur einungis hlut í hugsanlegri olíu- eða gasvinnslu á leyfissvæðinu í framtíðinni. Það verður að fara í einu og öllu eftir íslenskum lögum og reglum í starfsemi sinni hér við land, eins og önnur fyrirtæki sem hér starfa.

Fjárhagslegir hagsmunir íslenska ríkisins eru tryggðir, því það fær til sín mikinn hluta hagnaðar af allri olíu- eða gasvinnslu á svæðinu í framtíðinni, í gegnum skattheimtu. Þannig má í raun segja að ríkið sé stór hluthafi í þessu áhættuverkefni, án þess að leggja fram hlutafé í byrjun,“ segir í tilkynningu Eykon Energy.

„Hver borhola getur kostað tugi milljarða króna, og rannsóknir þar á undan velta milljörðum. Nálgun íslenska ríkisins er skynsamleg, að mati Eykons Energy. Olíuleit er áhættufjárfesting og rétt er að einkaaðilar taki þá áhættu á eigin reikning, þannig að almenningur sitji ekki eftir með sárt ennið. Reynslan úr fjármálaheiminum síðustu ár sýnir, að best er að ekki sé mögulegt að varpa áhættunni af fjárfestingum á herðar annarra. Kínverska fyrirtækið, ásamt öðrum aðilum leyfisins, fjárfestir og tekur áhættuna. Að mati Eykons Energy er mikill fengur fyrir Íslendinga í áhuga félagsins og þátttöku, því í þeim umsvifum sem fylgja mögulegri starfsemi þess felast mikil tækifæri fyrir íslenskt efnahagslíf,“ segir ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK