Góðar fréttir fyrir Bandaríkin

Alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch Ratings hefur staðfest lánshæfiseinkunn bandaríska ríkisins, AAA, sem er hæsta einkunn sem matsfyrirtækið veitir. Horfur eru nú stöðugar en voru áður neikvæðar.

Aftur á móti lækkar Fitch horfur Rússlands úr stöðugum í neikvæðar eftir að Bandaríkin settu nýjar viðskiptaþvinganir á Rússa í kjölfar sameinungu Rússlands og Krímskaga.

Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um viðskiptaþvinganir Bandaríkjanna gagnvart Rússlandi og fund leiðtoga Evrópusambandsríkjanna. Á þeim fundi var samþykkt að hætta við ráðstefnu ESB og Rússlands í júní og eins verði hætt við reglubundna fundi milli ríkjanna 28 og Rússa.

Barack Obama Bandaríkjaforseti tilkynnti í gær refsiaðgerðir gegn tuttugu rússneskum einstaklingum, sem koma til viðbótar þeim ellefu sem þegar hafa sætt aðgerðum af hálfu stjórnvalda í Washington. Um er að ræða þingmenn og hátt setta embættismenn, auk einnar fjármálastofnunar; Aktsionerny Bank of the Russian Federation. Talsmenn bandaríska fjármálaráðuneytisins sögðu í gær að á meðal hluthafa í bankanum, sem einnig gengur undir nafninu Bank Rossiya, væru menn úr innsta hring Vladimír Pútín forseta.

Obama sagði aðgerðirnar viðbrögð við framgöngu Rússa fram að þessu en varaði við því að ef þeir létu ekki segjast yrði gripið til harkalegri úrræða. Þá upplýsti forsetinn að hann hefði undirritað tilskipun sem gerði honum kleift að grípa til aðgerða gegn afmörkuðum geirum rússnesks efnahagslífs. „Þetta er ekki sú útkoma sem við vildum helst sjá,“ sagði Obama og varaði við því að aðgerðirnar myndu hafa veruleg áhrif á efnahag Rússlands.

Skömmu eftir að Obama gerði blaðamönnum grein fyrir ákvörðun stjórnvalda, tilkynnti rússneska utanríkisráðuneytið að Rússar hygðust grípa til eigin refsiaðgerða gegn bandarískum ráðamönnum. „Það á ekki að vera neinn vafi á því að hverri óvinveittri árás verður mætt með fullnægjandi hætti,“ sagði ráðuneytið. Aðgerðir Rússa beinast gegn níu þingmönnum og aðstoðarmönnum Obama, þ. á m. John McCain, John Boehner, Harry Reid, Mary Landrieu og Daniel Coats.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK