JL húsið fær nýtt hlutverk

Útsýni er yfir Faxaflóa úr mörgum herbergjunum.
Útsýni er yfir Faxaflóa úr mörgum herbergjunum. Rax / Ragnar Axelsson

Þessa dagana er unnið að því að breyta þremur af fimm hæðum JL hússins yfir í samblöndu af hosteli og hóteli. Gert er ráð fyrir að rými verði fyrir um 230-250 gesti, en gistiplássin eiga að vera allt frá einskonar hólfi yfir í stórglæsilega svítu með útsýni yfir Faxaflóa og Snæfellsjökul. Á neðstu hæðinni verður svo veitingahús, búð, bar og kaffihús.

Reykjavíkur akademían og Nóatún áður í húsinu

Þessi hugmynd að blönduðu hóteli og hosteli hefur undanfarin ár verið að ryðja sér til rúms um allan heim, en hún gengur út á að bjóða fólki upp á þessa auknu nánd og möguleika á að kynnast fleira fólki sem hefur einkennt hostel hingað til. „Þetta á að vera hótel sem býður upp á hostel anda og hostel sem býður upp á hótel þjónustu,“ segir Kristín Ólafsdóttir, en hefur yfirumsjón með að breyta gömlu aðstöðu Reykjavíkur akademíunnar og Nóatúni í þennan nýja gististað. Vegna áherslunnar segir Kristín að þau notist við skilgreininguna hostel, þar sem stafurinn s sé innan sviga, ho(s)tel.

Gistiheimilið verður í JL-húsinu.
Gistiheimilið verður í JL-húsinu. Mynd af Google Streetview

Kristín segir þetta vera rosalega skemmtilegt verkefni, enda séu þau að reyna að byggja upp nýja hugmynd á Íslandi þar sem öllum hópum ferðamanna sé blandað saman á einn stað til að gera mjög skapandi stað. „Kúltúrinn er að þú ert ekki einn,“ segir Kristín og bendir á að í hostel umhverfi sé mun auðveldara að setjast á borð með ókunnugum og byrja að spjalla en á hótelum. Segir hún þetta vera ákveðna þróun sem sé að eiga sér stað um allan heim og þau vilji gera þessu hærra undir höfði hér á landi líka.

Umvefur Myndlistaskólann

Í dag er Myndlistaskólinn í Reykjavík staðsettur á annarri og þriðju hæð hússins, en  ho(s)telið verður bæði á jarðhæð og á fjórðu og fimmtu hæð að sögn Kristínar. Hún segir að kynnt verði ný tegund af svefnaðstöðu hér á landi sem hafi notið mikilla vinsælda í Asíu undanfarin ár, en það svefnpláss í einskonar hólfi (e. pod). Ganga hólfin undir nafninu poddar, en Kristín segir að auk þeirra verði venjuleg hostelherbergi með kojum, herbergi með sameiginlegum baðherbergjum, hótelherbergi fyrir bæði tvo og fjölskyldur með sér baðherbergi og að lokum stór svíta sem verði með besta útsýninu yfir sjóinn, Esjuna og upp á Snæfellsnes.

Á jarðhæðinni verður svo veitingastaður, bar, búð og annað skemmtilegt fyrir gesti og gangandi, en Kristín segir að það sé vilji aðstandenda ho(s)telsins að styðja bæði við bakið á íslenskum hönnuðum og framleiðendum og áhugi á mögulegu samstarfi með búðina. Þá verður pláss fyrir um 300 manns á veitingastaðnum og barnum, en Kristín segir að fljótlega verði tilkynnt um landsfrægan veitingamann sem mun sjá um veitingaaðstöðuna.

Vilja taka þátt í óhefðbundinni uppbyggingu Grandasvæðisins

Grandinn og nærumhverfi er að sögn Kristínar að sækja verulega í sig veðrið og vill hún að þessi nýi staður ýti undir þá þróun að þar sé öðruvísi menning en hefðbundnar lundabúðir. „Okkur langar að taka þátt og vera liður í þessari skemmtilegu uppbyggingu með öðruvísi ferðamannakúltúr,“ segir hún. Segir hún að stefnt sé að því að vera með allskonar uppákomur og listtengda viðburði. Hún segir tenginguna við myndlistarskólann einnig vera mjög skemmtilega, enda vilji þau horfa á listina í talsvert víðara samhengi en bara tónlistarviðburði og nefnir hún í því samhengi allskonar gjörninga og myndlist.

Unnið er að því að breyta þremur af fimm hæðum …
Unnið er að því að breyta þremur af fimm hæðum JL hússins í blöndu af hóteli og hosteli. Rax / Ragnar Axelsson

800 milljón fjárfesting

Stefnt er að opna staðinn í vetur gangi allt eftir, en það er hópur fjárfesta undir merkjum JL holding sem stendur á bak við verkefnið. Aðaleigandi er Margrét Ásgeirsdóttir athafnakona og hópur fjárfesta. Margrét átti áður stóran hlut í öryggisfyrirtækinu Securitas. Kristín segir að hópurinn hafi ekki áður komið saman að svona verkefni, en að mikill metnaður sé til að gera vel og að heildarfjárfesting í verkefninu nemi um 800 milljónum króna.

Sjálf hefur Kristín komið að uppbyggingu og rekstri á Bus hostel, en hún segist óvænt hafa dottið í það verkefni á árunum eftir hrun. „Það tókst ótrúlega vel og mér þykir mjög vænt um það,“ segir hún og bætir við að þá hafi enginn vitað alveg hvað verið var að fara út í, en allt hafi gengið vel og hostelið hlotið góða dóma. Eftir uppbyggingu Bus hostels hefur Kristín verið í ráðgjafaverkefnum í ferðaþjónustunni og segir hún að í gegnum það starf hafi verið leitað til hennar með nýja ho(s)telið.

Fékk nafnið Oddsson

Nýi staðurinn hefur þegar fengið nafnið Oddsson. Kristín segir hlægjandi við blaðamann að það tengist ekki stjórnmálamanninum og ritstjóranum Davíð, heldur sé um orðaleik að ræða sem virki á ensku, en sé einnig fallegt orð á íslensku. „Íslendingar eru smá „odd“ og þá getur þetta líka þýtt „The odds are on“ o.s.frv.“ segir Kristín.

Mikil vinna er framundan á næstu mánuðum að standsetja húsið.
Mikil vinna er framundan á næstu mánuðum að standsetja húsið. Rax / Ragnar Axelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK