Engin þörf á nýjum fjárfestum hjá WOW

Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi WOW.
Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi WOW.

Þrjár Airbus 330 breiðþotur sem WOW Air ætlar að leigja til þess að fljúga með farþega sína til Los Angeles og San Francisco á næsta ári verða einnig notaðar til þess að auka sætaframboð til Washington og Boston. Þetta kemur fram í viðtali Túrista.is við Skúla Mogensen, forstjóra og eiganda WOW Air. Hann segir að til þess að ná hámarks nýtingu á nýju flugvélunum hafi þurft að bæta við tveimur áfangastöðum á vesturströndinni.

Fyrri frétt mbl.is: WOW hefur flug til L.A. og San Francisco

Skúli segir einnig að staðsetning Íslands sé lykilatriði þegar það kemur að nýtingu á nýju flugvélunum.

 „Á meðan SAS verður að fylla heila þotu í Stokkhólmi til að geta flogið til Los Angeles þá getum við flogið með farþegar alls staðar úr Evrópu til Íslands og þaðan áfram til Los Angeles,“ er haft eftir Skúla í viðtalinu.

Mikill munur á Icelandair og WOW

WOW Air mun einnig hefja ferðir til Montréal í Kanada á næsta ári, á sama tíma og Icelandair. Áform WOW Air er að saxa verulega á forskot Icelandair á næstu misserum. Skúli segir mikinn mun á viðskiptamódelum flugfélaganna tveggja.

 „Við seljum nær alla okkar farmiða á netinu, erum í beinum samskiptum við viðskiptavinina og getum betur stillt af verðin en þeir sem selja í gegnum þriðja aðila. Lággjaldamódelið er búið að sanna sig í flugi innan N-Ameríku, Asíu og Evrópu og það virkar líka í flugi yfir hafið líkt og við höfum sýnt fram á. Við teljum því að núna sé rétti tímapunkturinn til að taka næstu skref og sjáum tækifæri í að fjölga áfangastöðum í N-Ameríku og Evrópu.”

Skúli segir jafnframt að nýju breiðþoturnar verði einnig nýttar til að flytja enn fleiri farþega á stærstu áfangastaði WOW í Evrópu, það er London, Kaupmannahöfn, París og Amsterdam. Hann telur að einnig verði not fyrir stærri vélar í fluginu til Dublin en sú borg bættist við leiðakerfi WOW sl. vor og hefur flugið þangað gengið mjög vel.

Þurfa að hefja framkvæmdir án tafa

Í viðtalinu segir Skúli það mikilvægt að hrinda af stað framkvæmdum við stækkun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar án frekara tafa. Aðspurður hvort að WOW Air hafi tryggt sér tíma á Keflavíkurflugvelli fyrir nýja flugið segir Skúli stöðuna fyrir næsta ár fína. En hann segir það þó fyrirsjáanlegt að mikill flöskuháls muni skapast í flughöfninni á næstu árum.

Skúli lítur ekki svo á að aukin umsvif félagsins kalli á breiðari eigendahóp en Skúli er eini eigandi WOW air. „Það er engin þörf á því að fá inn nýja fjárfesta því það gengur einfaldlega það vel hjá okkur. Í október vorum við til dæmis með 92 prósent sætanýtingu á öllum okkar stöðum sem er ótrúlega hátt hlutfall í október. En ef það kæmu inn fleiri fjárfestar þá gæti ég ekki leyft mér að hlaupa eins hratt og ég geri í dag."

Hér má sjá viðtal Túrista.is við Skúla í heild sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir