Krafist greiðslu á leiðréttingunni

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra við kynningu …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra við kynningu á skuldaleiðréttingunni. mbl.is/Ómar

Fjölmargir hafa hringt í Íbúðalánasjóð í dag. Undrandi yfir því að hafa fengið greiðslukröfu frá sjóðnum vegna láns er hljóðar upp á nákvæmlega sömu upphæð og fengin var úr leiðréttingunni. 

Samkvæmt upplýsingum frá Íbúðalánasjóði birtist greiðslukrafa í heimabanka allra lánþega sjóðsins sem fengu leiðréttingu á húsnæðislánum sínum. 

Ríkissjóður mun hins vegar greiða kröfuna. „Því miður birtist þetta svona,“ segir Hildigunnur Hauksdóttir, sérfræðingur á skrifstofu forstjóra Íbúðalánasjóðs.

Samkvæmt kröfu sem mbl hefur undir höndum er gjalddagi síðustu afborgunar, sem nemur fjórðungi leiðréttingarinnar, þann 4. janúar nk. og eindagi 16. janúar. 

„Lántakan“ er skráð hinn 12. janúar 2015 og er lánið verðtryggt með 5,1 prósent vöxtum. 

Íbúðalánasjóður sendi greiðslukröfu vegna leiðréttingarinnar til viðskiptavina.
Íbúðalánasjóður sendi greiðslukröfu vegna leiðréttingarinnar til viðskiptavina. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Samkvæmt upplýsingum frá Íbúðalánasjóði birtist krafan ekki meðal ógreiddra reikninga í heimabanka, heldur undir „rafrænum skjölum“, og er því ekki hægt að haka við reikninginn og greiða beint. Hins vegar er hægt að greiða kröfuna í banka, sem ætti þá með réttu að upplýsa viðskiptavininn um að greiðslan verði innt af hendi af ríkissjóði. 

Fyrirkomulagið byggist á því hvernig úrræðið var sett upp af hálfu ríkisstjórnarinnar. Fjármálastofnanir settu heildarsummuna sem fékkst úr leiðréttingunni í svokallaðan „leiðréttingarstubb“ sem skiptist í 75% hluta og 25% hluta.

Stærri hlutinn hefur þegar verið greiddur en 25% hlutinn var látinn standa eftir þar sem heildarupphæðin hefði getað breyst.

Nú liggur hins vegar fyrir að afgangurinn verður greiddur þann 4. janúar og er greiðslukrafan vegna þessa.

Nokkrir hafa þegar greitt „kröfuna“

Samkvæmt upplýsingum frá Íbúðalánasjóði hafa nokkrir lánþegar valið að greiða upp eftirstöðvar leiðréttingarinnar, þ.e. þessi 25%, sem koma til greiðslu þann 4. janúar nk.

Þetta hefur t.d. verið gert þegar verið er að færa lánin annað og hafa viðskiptavinir þá alltaf verið upplýstir um að ríkissjóður komi til með að greiða eftirstöðvarnar.

Þeir fá ekki endurgreitt þegar gengið verður endanlega frá leiðréttingunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK