Aukin umferð hefur slæm áhrif á Sjóvá

Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvá.
Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvá. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Afkoma Sjóvár af skaðatryggingum á síðasta ári olli vonbrigðum að sögn Hermanns Björnssonar, forstjóra fyrirtækisins. Landsmenn aka meira með lækkandi bensínverði og auknum kaupmætti og það hefur leitt til aukinnar tjónatíðni.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í afkomutilkynningu Sjóvár vegna nýbirts ársreiknings félagsins. Bent er á að samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni hafi umferð aukist um 6,2 prósent á síðasta ári og er það mesta aukning síðustu ára. Það hefur því miður leitt til mikillar fjölgunar tjóna og alvarlegra slysa í umferðinni að sögn forstjóra Sjóvár.

640 milljóna króna hagnaður

Tap Sjóvár eftir skatta nam tveimur milljörðum króna á fjórða ársfjórðungi síðasta árs. Sé litið til ársins 2015 í heild nam hagnaðurinn hins vegar 640 milljónum króna. Hagnaður fyrir skatta og afaskrift óefnislegra eigna nam 3,8 milljörðum króna á síðasta ári.

Heildargjöld fyrirtækisins, m.a. vegna tjóna og rekstrarkostnaðar, jukust nokkuð milli ára og námu 17,8 milljörðum króna samanborið við 12,8 milljarða króna árið áður. 

Eigið fé fyrirtækisins lækkaði nokkuð milli ára og nam 16,2 milljörðum króna í lok ársins samanborið við 20 milljarða króna árið áður. 

Fjárfestingartekjur jukust aftur á móti mikið milli ára og námu 4,6 milljörðum króna samanborið við 1,3 milljarða árið áður.

Í afkomutilkynningu er haft eftir Hermanni að afkoman af fjárfestingarstarfsemi hafi verið töluvert betri en alla jafna megi vænta. 

Ávöxtun eignasafna félagsins nam 3,7 prósentum á ársfjórðungnum og 15,6 prósentum á árinu 2015. Mestri ávöxtun skiluðu hlutabréf, 12,9 prósent á fjórðungnum og 53,3 prósent á árinu. Helsta breyting á fjárfestingarsafni félagsins á árinu var að félagið bætti við eign sína í hlutabréfum og jók hlutfall þeirra á kostnað skuldabréfa.

Lægra bensínverð leiðir til meiri umferðar sem aftur leiðir til ...
Lægra bensínverð leiðir til meiri umferðar sem aftur leiðir til fleiri tjóna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Afkoman kann að sveiflast

„Staða Sjóvár er sterk og félagið vel í stakk búið til að sinna því hlutverki að bæta tjón viðskiptavina og mæta þeim sveiflum sem óhjákvæmilega verða, hvort sem litið er til veðurfars eða stærri tjónsatburða. Af þeim sökum kann afkoma félagsins að sveiflast á stuttum tímabilum en er jafnari yfir lengra tímabil,“ er haft eftir Hermanni Björnssyni. 

Gerð er tillaga um arð sem nemur tveimur krónum á hlut eða um 3,1 milljarði króna. 

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir